Hjól atvinnulífsins mjakast á ný í Wuhan

Hjól atvinnulífsins fara hægt og rólega af stað eftir að nokkur fyrirtæki í Wuhan, þar sem kórónuveiran kom fyrst upp í lok síðasta árs, hafa fengið leyfi til að hefja starfsemi að nýju. Enn er þó tómlegt um að litast í borginni þar sem ferða- og samkomubann hefur verið í gildi í um mánuð.  

Fyrst og fremst er um að ræða verksmiðjur sem framleiða nauðsynjavörur en fyrirtæki sem eru hluti af alþjóðlegum framleiðslukeðjum hafa einnig fengið leyfi frá yfirvöldum í Hubei-héraði til að hefja starfsemi. Önnur fyrirtæki fá að hefja starfsemi 20. mars samkvæmt núgildandi áætlun. 

Nýsmitum heldur áfram að fækka á meginlandi Kína og í Suður-Kóreu en á sama tíma hefur fjöldi tilfella tvöfaldast í Bandaríkjunum síðastliðinn sólarhring. Aukningin er rakin til þess að loks bárust nægar birgðir af veiruprófum en Mike Pence, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, sem fer fyr­ir aðgerðahópi sem á að tak­ast á við út­breiðslu kór­ónu­veirunn­ar, viður­kenndi skort­inn fyrir helgi. 

 

Fjölgun tilfella má einnig rekja til breyttra aðferða við greiningu á veirunni sem hefur færst til hvers ríkis fyrir sig í stað alríkisins. Faraldursfræðingar hafa gagnrýnt seinagang við greiningar og telja að veiran sé mun útbreiddari en talið er. Til samanburðar má nefna að fyrsta tilfellið í Suður-Kóreu kom upp sama dag og í Bandaríkjunum. Þar í landi hafa 189 þúsund próf verið gerð en aðein tæp 9 þúsund í Bandaríkjunum. 

Rúmlega 119 þúsund tilfelli af kórónuveirunni hafa greinst í heiminum. Dauðsföllin eru orðin 4.284 en tæplega 66 þúsund hafa náð fullum bata. Smitin hér á landi eru orðin 81 talsins og fjölgaði um 16 í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert