Öllum menntastofnunum í Danmörku verður lokað frá og með komandi föstudegi. Öllum menningarstofnunum verður lokað frá og með þessari stundu. Frá þessu greindi forsætisráðherra Danmerkur, Mette Frederiksen, rétt í þessu.
Vara lokanirnar að minnsta kosti í tvær vikur.
„Við skulum ekki setja Danmörku í stopp og senda Danmörku í efnahagskreppu,“ sagði Frederiksen í beinni útsendingu í danska ríkissjónvarpinu í kvöld. „Við erum ekki í matarkreppu og það er engin ástæða til að hamstra,“ bætti hún við.
540 Danir hafa smitast af kórónuveirunni og hefur hún breiðst út virkilega hratt að sögn yfirvalda þar í landi. Rúmlega 1.300 manns eru þá í sóttkví.