Ekki rétt skref að lýsa yfir ferðabanni

AFP

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, telur að ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta um að lýsa yfir ferðabanni frá Evrópu sé ekki rétt skref. Menn hafi ekkert í höndum sem styðji slíka ákvörðun. 

Þetta sagði Sunak í samtali við BBC. Hann er á meðal fjölmargra evrópskra ráðherra sem hafa verið að bregðast við tíðindum næturinnar. Bretland er aftur á móti eitt fárra Evrópuríkja sem bannið nær ekki til. Bannið nær aftur á móti til Íslands. 

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands.
Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands. AFP

Samkvæmt ákvörðun Bandaríkjaforseta verður ferðamönnum frá 26 Evrópuríkjum meinað að koma til Bandaríkjanna í 30 daga, en Trump segir þetta gert til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti sem heimsfaraldur í gær. 

Bresk stjórnvöld segja að þau muni ekki leggja á svipað bann og Bandaríkin hafa nú gert. 

„Það sem við erum að reyna að gera er að hefta útbreiðslu veirunnar en á sama tíma gerum við okkur grein fyrir því að það verður að teljast líklega að hún muni breiðast hraðar út,“ sagði Sunak. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert