Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir banni við ferðum frá Evrópu til Bandaríkjanna til að reyna að hamla útbreiðslu kórónuveirunnar. Bannið mun standa yfir næstu 30 daga.
„Til að halda nýjum tilfellum frá því að koma að ströndum okkar, munum við stöðva allar ferðir frá Evrópu til Bandaríkjanna næstu 30 daga. Þessar nýju reglur munu taka gildi á miðnætti á föstudag,“ sagði Trump í sjónvarpsávarpi úr Hvíta húsinu rétt í þessu, eða klukkan 21 að staðartíma í Washington.
Forsetinn sagði Evrópu hafa séð fleiri tilfelli vegna þess að ríkisstjórnum hefði mistekist að stöðva ferðir frá Kína, þar sem faraldurinn hófst. Hann tók einnig fram að bannið gilti ekki um ferðir frá Bretlandi til Bandaríkjanna.
Trump hefur til þessa reynt að draga úr alvarleika faraldursins og sagði meðal annars fyrr í vikunni að veiran hefði komið heiminum að óvörum.