Annar hver hefur hrakist að heiman

Annar hver Sýrlendingur hefur hrakist að heiman frá því stríðið hófst í landinu fyrir níu árum. Margir þeirra, karlar, konur og börn, hafa þurft að flýja heimili sitt oftar en einu sinni. Sýrlendingar eru fjölmennasti hópur flóttafólks í heiminum en 5,6 milljónir Sýrlendinga hafa flúið til nágrannaríkjanna. Á sama tíma eru rúmlega sex milljónir Sýrlendinga á hrakhólum í heimalandinu. 

Árin líða og ástandið batnar lítið eða jafnvel ekkert. Á sama tíma og meirihluti þeirra sem hafast við í nágrannalöndunum er undir fátækramörkum berjast þau við að reyna að skapa sér og fjölskyldum sínum framtíð. Á sama tíma og þau þrá að geta snúið heim leggja þau sitt af mörkum til þeirra hagkerfa sem hafa veitt þeim skjól. 

Átökin í Idlib-héraði og annars staðar í norðvesturhluta Sýrlands hafa hrakið milljón íbúa á flótta frá því í desember, eða tæpum níu árum frá því stríðið hófst. Þetta fólk býr nú við skelfilegar aðstæður annars staðar í Sýrlandi og hefur litla von um að geta eignast eðlilegt líf í náinni framtíð, að því er segir í fréttatilkynningu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) í tilefni þess að níu ár eru í þessari viku frá því stríðið hófst í Sýrlandi. 

Síðustu níu ár hafa sýnt mátt samstöðu en ríkisstjórnir og almenningur í Tyrklandi, Líbanon, Jórdaníu, Írak og Egyptalandi auk fleiri ríkja sem ekki eru nágrannar þess stríðshrjáða lands, Sýrlands, hafa sýnt ótrúlegan kjark með því að veita Sýrlendingum vernd og öryggi, opnað skóla sína, sjúkrahús og heimili fyrir sýrlenskum flóttamönnum. Á sama tíma og yfir helmingur sýrlensku þjóðarinnar hefur þurft að flýja og eru flóttamenn í öðrum ríkjum eða á vergangi í heimalandinu. 

Sýrlenskar konur sem hafa flúið heimili sín í Idlib og …
Sýrlenskar konur sem hafa flúið heimili sín í Idlib og eru í tjaldbúðum í þorpinu Kafr Lusin skammt frá landamærum Tyrklands. AFP

Um miðjan febrúar voru 3,6 milljónir sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi og í Líbanon er tæp ein milljón Sýrlendinga. Í Jórdaníu eru þeir 700 þúsund talsins en í Írak eru 250 þúsund sýrlenskir flóttamenn, 130 þúsund í Egyptalandi og rúmlega 30 þúsund í Norður-Afríku. 

Eins og áður sagði er yfir helmingur þeirra undir fátækramörkum og 35% sýrlenskra barna ganga ekki í skóla. 

Fil­ippo Grandi, fram­kvæmda­stjóri Flótta­manna­stofn­un­ar Sam­einuðu þjóðanna, segist djúpt snortinn af hugrekki og þrautseigju sýrlensku þjóðarinnar. „Daginn inn og út hafa þeir mætt þjáningum og skorti,“ segir Grandi í fréttatilkynningu. Hann biður fólk um að gleyma ekki þeim sem eru á vergangi í Sýrlandi og þeim sem hafa neyðst til þess að flýja land. Ekki megi gleyma því göfuglyndi sem nágrannaþjóðirnar hafa sýnt og sennilega er þetta stórkostlegasta dæmið um samstöðu í áratugi í heiminum. Þetta er hins vegar ekki nóg segir Grandi og þjóðir heims verði að styðja áfram við bakið á flóttafólki. Ekki síst í nágrannaríkjum Sýrlands, svo sem Líbanon þar sem efnahagskreppa ríkir. 

Án aðstoðar eykst neyð flóttafólks og það neyðist til þess að taka börn sín úr skóla svo þau geti aðstoðað við framfærslu fjölskyldunnar. Daglegar máltíðir eru ekki tryggar hjá þessum hópi og flóttafólk er í áhættuhópi þegar kemur að mansali og misnotkun. Fólk neyðist til þess að búa á götunni, selja börn sín í hjónaband og börn enda í þrælabúðum. 

Vefur UNHCR

Hvað gerist þegar kórónuveiran herjar á stríðshrjáð börn?
Hvað gerist þegar kórónuveiran herjar á stríðshrjáð börn? AFP

Hjálparstofnanir reyna nú allt sem þær geta til þess að koma í veg fyrir að kórónuveiran breiðist út í norðvesturhluta Sýrlands en enn hefur ekki verið staðfest smit í landinu. Heilbrigðiskerfi landsins er í rúst og vegna þess hversu margir eru á hrakhólum innanlands er nánast ómögulegt að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.

Um þrjár milljónir íbúa Idlib búa við sprengjuregn og hefur árásum verið beint að skólum og heilbrigðisstofnunum. Eins eiga margir þeirra hvergi aðgang að húsaskjóli og sofa úti. 

Á vef UNICEF kemur fram að yfir fimm milljónir barna þurfi á aðstoð að halda í Sýrlandi. Mörg þeirra eru fædd eftir að stríðið hófst og þekkja ekki líf án átaka. Í fyrra voru um 900 börn drepin í Sýrlandi. Af þeim voru 70% drepin í árásum í norðvesturhluta landsins. 

Í ræðu sem Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, flutti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í lok febrúar fór hún yfir stöðu mála í Sýrlandi níu árum eftir að stríðið þar hófst. 

„Nýtt ár, nýr áratugur. Nýr kafli í sýrlensku hamförunum sem skilið hafa land og þjóð eftir í eyðileggingu hins endalausa stríðs. Árið 2020 er tæplega tveggja mánaða gamalt og samkvæmt Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hafa hátt í 300 manns látið lífið í Idlib og Aleppo frá upphafi árs. Ástandið versnar á hverjum degi,“ sagði Fore í upphafi ræðu sinnar.

Hún minnti á að síðan í desember hefðu 900 þúsund manns, þar af hálf milljón barna, flúið heimili sín í norðvesturhluta Sýrlands. Það séu gríðarlegir fólksflutningar á skömmum tíma. Og í tilfelli margra fjölskyldna er þetta kannski í sjötta eða sjöunda skipti sem þau hafa mátt rífa sig upp og flýja.

Frá Idlib-héraði. Það gefur auga leið að það er ekki …
Frá Idlib-héraði. Það gefur auga leið að það er ekki mikið um varnir gegn kórónuveirunni á stöðum sem þessum. AFP

„Tugþúsundir búa í bráðabirgðatjöldum, opinberum byggingum, undir berum himni og í hnipri undir trjám. Berskjölduð fyrir rigningu, snjó og frosti hins óvægna sýrlenska vetrar,“ sagði Fore og rifjaði upp nýlegar árásir á flóttamannabúðir í Idlib og á skóla og leikskóla í vikunni þar sem börn og kennarar létu lífið. Árásirnar væru hrottalegar og gjörsamlega óverjandi í alla staði. En lýsandi fyrir þann daglega hrylling, þá martröð sem saklausir borgarar í Sýrlandi þurfi að lifa við.

„Við höfum heyrt fregnir af börnum sem hafa frosið í hel. Þegar eldiviður klárast brenna fjölskyldurnar það sem þær finna. Plastpoka, rusl og húsgögn til að ná upp smá hita eða elda eitthvert smáræði ef svo ber undir. Í óformlegum nýbyggðum sem þessum eru konur og börn í sérstakri hættu gagnvart misnotkun og ofbeldi.“

Fore sagði að ofan á þetta allt saman væru jarðsprengjur og heimagerðar sprengjur um allt og að fólk væri að taka mikla áhættu með hverju skrefi. Hún útskýrði fyrir Öryggisráðinu að í norðvesturhluta Sýrlands hefðu 280 þúsund börn verið svipt menntun sinni og nærri tvö hundruð skólar væru óstarfhæfir, ónýtir eða skemmdir og nú notaðir sem skýli.

„Enn eitt áfallið fyrir von þessara barna og framtíð.“

Nær enginn aðgangur sé að heilsugæslu. Ýmist væri hún ekki til staðar eða orðin of dýr fyrir fólk. Sjúkrahús væru í skotlínu árásarmanna. Þurft hafi að leggja niður starfsemi 72 vegna átaka.

Níu ár.
Níu ár. AFP

Og þetta sé bara í norðvesturhluta landsins. Þá eru óátalin áhrifin, eyðileggingin og neyðin víðs vegar um Sýrland vegna þessa níu ára stríðs sem engan enda virðist ætla að taka. 

Af þeim 11 milljónum manna um allt Sýrland sem þarfnast mannúðaraðstoðar, segir Fore að helmingurinn séu börn. 6,5 milljónir Sýrlendinga upplifi hungur á hverjum degi.

Frétt á vef UNICEF á Íslandi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert