Landamærum Danmerkur verður lokað að hluta eða öllu leyti frá og með hádegi á morgun til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti þessa ákvörðun stjórnvalda á blaðamannafundi rétt í þessu.
Flugsamgöngur verða takmarkaðar sem og bíla- og lestaumferð við landamærin með örfáum undantekningum. Lokunin gildir í fjórar vikur eða til 13. apríl næstkomandi. Lokunin mun ekki hafa áhrif á fraktflutninga og áfram verður hægt að flytja inn nauðsynleg matvæli, lyf og nauðsynjavörur.
Mette segir að landsmenn megi búast við því að danski herinn standi vörð við landamærin. „Auðvitað ber lögreglan ábyrgð á eftirlitinu en herinn tekur þátt í því,“ segir Mette.
Lokunin gildir í einn mánuð, til 13. apríl, fylgir henni stöðvun flug-, ferju- og lestaumferðar. „Við erum á óplægðum akri. Við upplifum aðstæður sem ekkert okkar hefur reynt áður,“ sagði ráðherra, „ég þykist þess fullviss að við komumst gegnum þetta í sameiningu. Ég geri mér ljóst að þetta eru örþrifaráð og upplifast sem slík, en ég er sannfærð um að þetta er þess virði.“
Öllum aðvífandi verður vísað frá landinu nema þeir geti sýnt fram á að þeir eigi þangað mjög brýnt erindi. Meðal brýnna erinda telst að viðkomandi starfi eða búi í landinu, útskýrði Nick Hækkerup dómsmálaráðherra á fundinum.
Eins letja dönsk yfirvöld þegna sína mjög til allra óþarfra ferða út fyrir landið, enda hafa þau sett allan heiminn á rauðgult hættustig.
„Skilaboðin til dönsku þjóðarinnar eru skýr, einföld og alvarleg: Engin ferðalög nema alvarleg nauðsyn knýi. Þeir sem eru þegar staddir erlendis skulu leita heim sem bráðast,“ sagði Jeppe Kofod utanríkisráðherra og tók það fram að orðum hans væri beint til þeirra Dana sem væru erlendis á ferðalögum, ekki þeirra sem byggju utan Danmerkur.
Fyrsta tilfelli kórónuveirunnar greindist í Danmörku 27. febrúar, degi áður en fyrsta tilfellið greindist hér á landi. Smitið má rekja til skíðasvæðis í norðurhluta Ítalíu. 788 tilfelli kórónuveirunnar hafa verið staðfest en ekkert dauðsfall. Einn hefur náð fullum bata samkvæmt tölfræðiupplýsingum frá fræðimönnum við Johns Hopkins-háskóla.