Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur lýst yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Hann heitir því að veita ríkjunum og heilbrigðisstofnunum 50 milljarða dollara til að hefta útbreiðslu veirunnar.
Þetta kom fram í ávarpi Trumps fyrir utan Hvíta húsið í kvöld. Trump hefur beðið alla spítala í landinu að virkja neyðaráætlanir sínar. Þá sagði hann ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna, sem tekur gildi á miðnætti, myndu bjarga lífi fólks. Hann segir ástandið sem nú ríkir vera tímabundið.
Trump sagði jafnframt að hann myndi líklega gefa sýni fljótlega til að ganga úr skugga um hvort hann hefði greinst með kórónuveiruna. Fabio Wajngarten, upplýsingafulltrúi Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu, sem fundaði með Trump og Mike Pence varaforseta í Flórída um helgina, hefur verið greindur með COVID-19, sjúkdóminn sem kórónuveiran veldur. Trump sagði í gær að hann hygðist ekki gefa sýni en hefur nú greinilega snúist hugur.
Trump lagði þó áherslu á að hann fyndi ekki fyrir neinum einkennum.
LIVE: President @realDonaldTrump holds a news conference https://t.co/D975UkADhj
— The White House (@WhiteHouse) March 13, 2020
1.701 tilfelli kórónuveirunnar hefur verið greint í Bandaríkjunum og 40 hafa látið lífið. Bandarísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd fyrir seinagang í greiningu á tilfellum og hefur Mike Pence varaforseti til að mynda viðurkennt að skortur hafi verið á veiruprófum um tíma.