Dönsk heilbrigðisyfirvöld staðfestu fyrsta dauðsfall í Danmörku af völdum kórónuveirunnar síðdegis.
81 árs gamall einstaklingur lét lífið á Herlev og Gentofte-sjúkrahúsinu í úthverfi Kaupmannahafnar. Hann var lagður inn á spítalann vegna undirliggjandi veikinda en sýndi einkenni COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, á meðan hann lá inni. Við sýnatöku kom í ljós að sjúklingurinn var sýktur af veirunni.
Fréttaritari DR í heilbrigðismálum segir það ekki koma á óvart að fyrsta dauðsfallið af völdum kórónuveirunnar hafi verið staðfest. Fyrsta tilfelli veirunnar greindist í Danmörku 27. febrúar, degi áður en fyrsta tilfellið greindist hér á landi. Smitið má rekja til skíðasvæðis á norðurhluta Ítalíu. 836 tilfelli kórónuveirunnar hafa verið staðfest í Danmörku.
Yfir 150.000 tilfelli hafa greinst í heiminum og 5.614 látið lífið. Kórónuveirufaraldurinn, sem skilgreindur er sem heimsfaraldur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, er í rénun í Asíu en enn að breiðast hratt út í Evrópu, til að mynda á Ítalíu, Spáni, Frakklandi og Bretlandi.