Pólitísk ákvörðun að loka landamærum

Vörubíll keyrir yfir landamæri Danmerkur og Þýskalands.Lokunin hefur ekki áhrif …
Vörubíll keyrir yfir landamæri Danmerkur og Þýskalands.Lokunin hefur ekki áhrif á fraktflutninga. AFP

Ákvörðun danskra stjórnvalda um að loka landamærum sínum tímabundið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar var ekki tekin að undirlagi heilbrigðisyfirvalda. Þessu greindi Søren Brostrøm landlæknir frá á blaðamannafundi í gær. „Þetta er pólitísk ákvörðun að miklu leyti. Það er engin skýr vísindaleg staðfesting á því hversu mikil áhrif þetta mun hafa,“ segir Brostrøm og bætir við að landamæralokunin sé ekki meðal þeirra aðgerða sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með í baráttunni við veiruna.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, tilkynnti lokun landamæra Danmerkur á blaðamannafundi á föstudag. Hún tók gildi á hádegi daginn eftir og gildir í einn mánuð. Ákvörðunin hefur fengið blendin viðbrögð. Sumir hrósa forsætisráðherranum fyrir þor en aðrir telja að aðgerðirnar gangi allt of langt. 

Meðal þeirra síðarnefndu er Else Smith, fyrrverandi landlæknir Danmerkur, en hún segir í samtali við Politiken að það hafi „alls engin áhrif á smit í Danmörku að loka landamærunum nú“. Bætir hún við að það sé erfitt að skilja svo grófar aðgerðir.

Hermenn gæta dönsku landamæranna.
Hermenn gæta dönsku landamæranna. AFP

Nágrannar Dana í norðri, Svíar, klóra sér einnig í hausnum yfir ákvörðun danskra. Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, gagnrýndi aðgerðina þegar á föstudag. „Sögulega séð hefur það sýnt sig að slíkar aðgerðir eru algjörlega gagnslausar,“ segir hann í samtali við Aftonbladet. Segir hann að mögulega mætti fresta útbreiðslunni um nokkra daga en erfitt sé að sjá hvaða gagn sé að því.

Á blaðamannafundi almannavarna í gær voru Alma Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn spurð út í bann danskra yfirvalda. Sögðust þau ekki vilja taka afstöðu til þess enda væri það í höndum hvers ríkis fyrir sig að grípa til aðgerða miðað við þær forsendur sem þar væru fyrir hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert