Pútín mögulega í embætti til 2036

Stjórnarskrárbreytingarnar fela meðal annars í sér möguleika á tveimur sex …
Stjórnarskrárbreytingarnar fela meðal annars í sér möguleika á tveimur sex ára kjörtímabilum til viðbótar fyrir Pútín, en samkvæmt núverandi stjórnarskrá er forsetum heimilt að sitja í tvö kjörtímabil. AFP

Vladimír Pútín Rússlandsforseti undirritaði í gær stjórnarskrárbreytingar sem veita honum meðal annars heimild til að sitja í embætti í tvö kjörtímabil til viðbótar, eða til 2036. 

Breytingarnar eru 400 talsins og er viðaukinn 68 síðna langur og bíður nú samþykkis stjórnarskrárdómstóls í næstu viku. Að því loknu verður þjóðaratkvæðagreiðsla um breytingarnar, og er hún áætluð 22. apríl. 

Breytingarnar voru fyrst kynntar í janúar og þá sagði Dímítrí Med­vedev for­sæt­is­ráðherra Rúss­lands og rík­is­stjórn hans óvænt af sér í dag.

Valentina Matvienko, forseti efri deildar rússneska þingsins, segir að útbreiðsla kórónuveirunnar muni ekki hafa áhrif á þjóðaratkvæðagreiðsluna. Samkvæmt opinberum tölum hafa aðeins 59 greinst með veiruna í Rússlandi og enginn látið lífið. Vangaveltur voru uppi um rafræna þjóðaratkvæðagreiðslu en stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt þá aðferð og segja hana ýta undir að niðurstöðurnar verði falsaðar. 

Stjórnarskrárbreytingarnar fela meðal annars í sér möguleika á tveimur sex ára kjörtímabilum til viðbótar fyrir Pútín, en samkvæmt núverandi stjórnarskrá er forsetum heimilt að sitja í tvö kjörtímabil. Samkvæmt því ætti Pútín að fara frá völdum eftir fjögur ár. Andstæðingar Pútíns gagnrýna breytingarnar og segja tilgang þeirra aðeins vera að heimila honum að herða tök sín enn frekar á stjórn landsins. 

Breytingunum var mótmælt á götum Moskvu í gær þrátt fyrir að fjöldasamkomur hafi verið bannaðar sökum útbreiðslu kórónuveirunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert