Neita að hafa hunsað íslensk yfirvöld

Skíðasvæðinu í Ischgl, þar sem maðurinn var á skíðum í …
Skíðasvæðinu í Ischgl, þar sem maðurinn var á skíðum í lok febrúar, hefur nú verið lokað. AFP

Yfirvöld í Tíról í Austurríki vísa á bug gagnrýni þess efnis að þau hafi ekki hlustað á íslensk yfirvöld um að þar væri útbreitt kórónuveirusmit.

Skíðabærinn Ischgl er í Tíról, en bærinn var snemma skilgreindur áhættusvæði af íslenskum yfirvöldum vegna fjölda Íslendinga, og raunar fleiri Norðurlandabúa, sem greindust með kórónuveirusmit eftir að hafa verið þar á skíðum.

Yfirvöld í Tíról hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi, en þar er nú minnst tíu skíðakennurum haldið í sóttkví. Yfirmaður heilbrigðismála í Tíról segir ekki rétt að yfirvöld hafi hunsað ábendingar frá Íslandi. Þvert á móti hafi yfirvöld ávallt gripið til fullnægjandi aðgerða þegar ítarlegar upplýsingar lágu fyrir.

Þannig hafi yfirvöldum borist upplýsingar frá Íslandi 6. mars og að í framhaldinu hafi starfsfólk á gististöðum 15 Íslendinga verið skimað, en niðurstöðurnar allar verið neikvæðar.

Í varúðarskyni hafi einnig verið skimað eftir veirunni meðal starfsfólks nálægra veitingahúsa og þar hafi veiran greinst í þýskum barþjóni. Þremur dögum síðar hafi barnum verið lokað og síðan öllum veitingastöðum sem vinsælir hafi verið hjá ferðamönnum frá Norðurlöndunum. Viku síðar var öllu skíðasvæðinu lokað.

Frétt Idowa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert