Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, kveðst hlynntur því að senda Bandaríkjamönnum fé með beinum hætti, en þetta yrði liður í stærðarinnar aðgerðapakka bandarískra stjórnvalda til að sporna gegn þeirri efnahagskrísu sem útbreiðsla kórónuveirunnar hefur valdið um allan heim.
Pakkinn nemur um einni billjón bandaríkjadala, eða sem samsvarar 140 billjónum króna, sem nemur um það bil heildarfjárlögum Breta.
„Við erum að íhuga að senda Bandaríkjamönnum ávísarnir þegar í stað,“ sagði Mnuchin.
Fram kemur á vef BBC að forsetaembættið eigi nú í viðræðum við Bandaríkjaþing um hinn risavaxna aðgerðapakka og hluti aðgerðanna er að senda ávísarnir að fjárhæð 250 milljarðar dala til landsmanna.
Útbreiðsla veirunnar og aðgerðir til að stemma stigu við henni hafa lagst þungt á Bandaríkin eins og aðrar þjóðir um allan heim, en þar hefur skólum og fyrirtækjum verið víða lokað. Um 5.200 manns eru sýktir af veirunni í Bandaríkjunum.
Bandaríkjaþing ræðir nú með hvaða hætti best sé að koma landsmönnum til aðstoðar í kjölfar þeirra aðgerða, s.s. samkomu- og útgöngubanna, sem hafa tekið gildi og lamað daglegt líf. En þetta er liður í þeim skrefum sem hafa verið stigin til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.
Þingmenn takast nú á um atriði eins og hversu háar ávísanirnar eigi að vera og hverjir eigi rétt að fá slíkan fjárhagsstuðning. Einnig er verið að ræða aðgerðir til að bjarga flugfélögum og hótelum sem hafa fengið á sig mikið högg.
Samþykki Bandaríkjaþing aðgerðapakkann er um að ræða hærri fjárhæð en var samþykkt til að bregðast við efnahagshruninu árið 2008.