Lömdu í potta og pönnur — vilja forsetann burt

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið gagnrýndur fyrir að taka …
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur verið gagnrýndur fyrir að taka kórónuveiruna ekki nógu alvarlega. Hér sést hann laga grímu á blaðamannafundi í gær. AFP

Fjöldi fólks í brasilísku borgunum Sao Paulo og Rio de Janeiro kom út á svalir heima hjá sér í gærkvöldi með potta og pönnur og lét í ljós óánægju sína með framgöngu forseta landsins í kórónuveirufaraldrinum.

Samkvæmt frétt BBC mótmæltu nokkrar milljónir Jair Bolsonaro forseta landsins og var krafa gerð um að hann segði af sér. 

Mótmælin eru þau fjölmennustu gegn Bolsonaro síðan hann tók við embætti forseta í ársbyrjun 2019.

Bolsonaro hefur verið harðlega gagnrýndur í heimalandi sínu en hann lýsti aðgerðum gegn faraldrinum sem „móðursýki“ fyrr í mánuðinum.

Sjálfur hefur Bolonaro tvívegis farið í sýnatöku vegna veirunnar og var niðurstaðan neikvæð í bæði skiptin.

Hins vegar hafa 14 einstaklingar úr starfsliði hans, sem ferðuðust með honum til Flórída til fundar við Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrr í mars, greinst með kórónuveiruna.

Alls hafa 500 tilfelli kórónuveiru verið staðfest í Brasilíu og fjórir hafa látist.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert