Tala látinna vegna kórónuveirunnar er nú komin yfir 9.000 á alheimsvísu, en um klukkan 11 í morgun höfðu 9.020 dauðsföll verið staðfest. Um er að ræða opinberar upplýsingar frá heilbrigðisyfirvöldum ríkjanna. AFP-fréttastofan greinir frá.
Alls hafa 4.134 látist í Evrópu en 3.416 í Asíu þar sem veiran kom fyrst upp í lok desember á síðasta ári, í borginni Wuhan í Hubei-héraði. í Evrópu var samtals tilkynnt um 712 dauðsföll af völdum veirunnar síðasta sólarhringinn og tilfellin í álfunni eru orðin 90.293. Þar af eru tilfellin á Íslandi orðin 330 talsins, en 80 ný tilfelli voru staðfest á síðasta sólarhring hér á landi.
Faraldurinn breiðist nú hratt út í Evrópu, sérstaklega á Ítalíu, Frakklandi og Spáni þar sem dauðföllum fjölgaði um 30 prósent á síðasta sólahring, en þar í landi hafa alls 767 látist af völdum veirunnar.