Nauðgarar teknir af lífi

Fjórir menn sem dæmdir voru fyrir hópnauðgun og morð á Indlandi voru hengdir í dag. Margir fögnuðu aftökunni en mál mannanna vakti heimsathygli og beindi sjónum fólks að kynbundnu ofbeldi á Indlandi.

Jyoti Singh, 23 ára nema í sjúkraþjálf­un, var nauðgað af fimm mönn­um og ung­lings­pilti eft­ir að hún þáði far með þeim þegar hún var á heim­leið eft­ir bíó með vini sín­um 16. desember 2012. Vinur hennar var laminn í rot en hún dregin aftur í bílinn þar sem henni var ítrekað nauðgað og beitt ofbeldi með járnstöng. Ofbeldið varaði í klukkustund en þá hentu þeir henni og vini hennar út úr bílnum. Hún lést þrett­án dög­um síðar af völd­um áverka sem hún hlaut við árás­ina. Hún lifði samt nægjanlega lengi til þess að bera kennsl á ódæðismennina.

Bílstjórinn og þrír aðrir voru handteknir 18. desember en hinir tveir voru handteknir viku síðar. Þeir voru ákærðir í febrúar 2013 en mánuði síðar fannst höfuðpaurinn, Ram Singh, látinn í klefa sínum. Yfirvöld segja að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en fjölskylda hans telur að hann hafi verið myrtur. 

Í ágúst 2013 var unglingurinn fundinn sekur um morð og nauðgun og dæmdur í þriggja ára vistun í unglingafangelsi. Hinir fjórir voru fundnir sekir og dæmdir til dauða í september 2013. Það tók því meira en sex ár að framfylgja dómnum. 

Singh var eins og áður sagði nemandi í sjúkraþjálfun og starfaði í símaveri. Fjölskylda hennar hafði flutt úr dreifbýli til borgarinnar þar sem faðir hannar starfaði sem hlaðmaður á flugvelli.

Mennirnir í rútunni: Ram Singh, Mukesh Singh, Vinay Sharma, Akshay Thakur og Pawan Gupta, unnu daglaunavinnu og bjuggu í fátækrahverfi í suðurhluta Delí.

Tæplega 34 þúsund nauðganir voru tilkynntar á Indlandi árið 2018 en talið er að þær séu miklu fleiri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert