Banna áfengissölu í Ósló

Borgarstjórn Óslóar bannaði áfengissölu allra veitingastaða þar í borginni frá …
Borgarstjórn Óslóar bannaði áfengissölu allra veitingastaða þar í borginni frá og með klukkan 20:30 á laugardagskvöldið. Victoria Marie Evensen, borgarfulltrúi fyrir norska Verkamannaflokkinn, ræddi bannið við mbl.is og kvað ítrekuð brot veitingastaða á sóttvarnareglum hafa verið dropann sem fyllti mælinn. Ljósmynd/Óslóarborg

„Ósló bannar alla sölu á áfengi frá klukkan 20:30 í gærkvöldi [laugardag] og þar til annað verður ákveðið. Veitingastaðir sem bjóða upp á mat, eða gefa fólki færi á að sækja eða fá mat heimsendan, mega þó hafa opið, en þeir mega ekki selja áfengi.“

Þetta sagði Victoria Marie Evensen, borgarfulltrúi í Ósló, í samtali við mbl.is í gær, sunnudag, en í norsku höfuðborginni var öll áfengissala veitingastaða bönnuð á laugardagskvöld. Síðasta bann þar á undan sem í gildi var vegna kórónuveirunnar tók til öldurhúsa sem ekki buðu upp á mat og hefur það gilt frá klukkan 18 fimmtudaginn 12. mars.

„Í ljós kom að margir þeirra staða sem fengu að hafa opið áfram fylgdu ekki sóttvarnareglunum, til dæmis varðandi lágmarksbil milli fólks, einkum kvað rammt að þessu núna síðustu daga, viðskiptaráð borgarinnar [n. Næringsetaten] athugaði stöðuna á 400 veitingastöðum,“ sagði borgarfulltrúinn.

Lögregluþjónar á hestum og sérsveitarbifreið á Karls Jóhanns-götu í miðbæ …
Lögregluþjónar á hestum og sérsveitarbifreið á Karls Jóhanns-götu í miðbæ Óslóar í fyrravor, alls óskylt kórónuveirufaraldri og því vínveitingabanni sem borgarstjórn Óslóar greip til á laugardaginn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Kvað Evensen tæplega 1.300 veitingastaði í Ósló hafa leyfi til vínveitinga. „Við [borgarráð] vöruðum við því á föstudaginn að hugsanlega yrði bann við sölu áfengis lendingin tækju vertar sig ekki á,“ sagði hún, en kvaðst aukinheldur fagna því að stjórnendur fjölda veitingastaða í borginni hefðu sýnt þá ábyrgð að loka dyrum sínum ótilneyddir.

Borgarstjórn hefur sætt gagnrýni

„Við þetta bætist svo að nokkrir staðir, sem voru búnir að loka, opnuðu á ný. Þar með myndast gríðarleg smithætta og það er meðal annars af þeim sökum sem sóttvarnalæknir Óslóar mælti með því að sala áfengis á veitingahúsum yrði bönnuð í borginni,“ sagði Evensen.

Hefur borgarstjórnin sætt gagnrýni vegna þessarar ákvörðunar? „Já, ekki er laust við það,“ svaraði Evensen, „sú skoðun hefur til dæmis heyrst að við hefðum átt að fara sömu leið og borgaryfirvöld í Bergen og meta hvern einasta veitingastað fyrir sig.

Flestar athugasemdir sem okkur hafa borist hafa þó verið á jákvæðu nótunum og mín upplifun er sú að flestir átti sig á nauðsyn þessa. Við teljum þetta bara einu færu leiðina eins og er. Fjöldi rekstraraðila fylgir ekki settum reglum og þá verðum við að beita þeim meðulum sem duga,“ sagði Victoria Marie Evensen, borgarfulltrúi í Ósló fyrir norska Verkamannaflokkinn, í samtali við mbl.is í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert