Norðmenn vilja stofna styrktarsjóð innan Sameinuðu þjóðanna til að hjálpa fátækum þjóðum að berjast við kórónuveiruna.
„Við höfum áhyggjur af áhrifunum sem vírusinn getur haft á þróunarlöndin sem eru með viðkvæmari heilbrigðiskerfi,“ sagði Dag Inge Ulstein, ráðherra þróunaraðstoðar.
„Alþjóðleg samstaða þvert á landamæri er mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að setja fjármagn í slíkan sjóð hjá Sameinuðu þjóðunum,“ bætti hann við.
Búist er við því að sjóðurinn verði stofnaður fljótt og jafnvel í þessari viku.
Í gær höfðu yfir 324 þúsund tilfelli kórónuveirunnar greinst í 171 landi, samkvæmt talningu AFP-fréttastofunnar, og að minnsta kosti 14.396 látist.