Staðan verri en gert var ráð fyrir

Rík­is­stjóri New York, Andrew Cu­omo.
Rík­is­stjóri New York, Andrew Cu­omo. AFP

Rík­is­stjóri New York, Andrew Cu­omo, segir að vöntun sé á heilbrigðisvörum í ríkinu og varar við því að kórónuveirufaraldurinn verði verri en gert hefur verið ráð fyrir.

„Hápunktur faraldursins verður hærri en við gerðum ráð fyrir og við náum þeim punkti fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ sagði Cuomo við fréttamenn í dag.

Hann sagði að bandaríska alríkisstjórnin sendi ekki nægan búnað til að berjast við veiruna og benti á að þörf væri á 30 þúsund öndunarvélum.

Yfir 25 þúsund tilfelli kórónuveiru hafa verið staðfest í New York-ríki og að minnsta kosti 210 hafa látist.

Karlmaður með grímu á gangi í New York.
Karlmaður með grímu á gangi í New York. AFP

„Við þurfum aðstoð núna,“ sagði Cuomo en ummæli hans koma í kjölfar þess að Donald Trump Banaríkjaforseti sagði að útgöngubann gæti eyðilagt landið. Það yrði opnað fyrr en síðar.

„New York er kanarífuglinn í kolanámunni. Það sem gerist í New York mun síðar verða að veruleika í Kaliforníu og Illinois,“ sagði Cuomo.

Hann kvartaði yfir því að 400 öndunarvélar hefðu verið sendar til New York-ríkis en þær eru alls sjö þúsund í ríkinu.

„Fjögur hundruð öndunarvélar? Ég þarf 30 þúsund. Fólk er greinilega ekki enn að átta sig á því hversu stórt vandamálið er.“

Talsmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofn­un­ar­inn­ar, Marga­ret Harris, sagði á blaðamanna­fundi í dag að Banda­rík­in gætu tekið fram úr Evr­ópu hvað það varðar að geta tal­ist þunga­miðja heims­far­ald­urs­ins.

„Við sjá­um núna mjög mikla fjölg­un til­fella í Banda­ríkj­an­um, svo að mögu­leik­inn er fyr­ir hendi.“

Tveir mánuðir eru síðan fyrsta smitið var staðfest í Bandaríkjunum. Hér má sjá samantekt BBC um útbreiðslu veirunnar í Bandaríkjunum síðustu rúmu 60 daga á 60 sekúndum. 

Umfjöllun BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert