Aðgerðapakki upp á tvær billjónir Bandaríkjadala

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild Bandaríkjaþings. AFP

Öldungadeild Bandaríkjaþings og forsetaembætti Bandaríkjanna hafa náð samkomulagi um aðgerðir til bjargar bandarísku efnahagslífi og milljónum Bandaríkjamanna sem hafa orðið illilega fyrir barðinu á kórónuveirunni. Aðgerðarpakkinn hljóðar upp á tvær billjónir (milljón milljónir) Bandaríkjadala.

Þetta kemur fram í máli leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni, Mitch McConnell, nú undir morgun. Viðbrögðin létu ekki á sér standa á hlutabréfamörkuðum í Asíu og hækkaði Nikkei-vísitalan í Tókýó um rúm 8%. 

„Loksins erum við með samkomulag,“ segir Mitch McConnell og vísar til þess að fjárfestingarnar sem verði farið í séu á pari við aðgerðir á stríðstímum.

Þrátt fyrir samkomulagið á enn eftir að greiða atkvæði um það í fulltrúadeildinni áður en frumvarpið verður að lögum með undirskrift Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert