Faraldur kórónuveirunnar ógnar öllu mannkyninu. Við þessu vara Sameinuðu þjóðirnar en þær kynntu í dag viðbragðsáætlun fyrir fátækustu hluta heimsins.
„COVID-19 ógnar öllu mannkyninu – og allt mannkynið verður að berjast á móti. Alþjóðlegar aðgerðir og samheldni eru lykilatriði. Aðgerðir einstakra ríkja munu ekki nægja,“ sagði aðalritarinn Antonio Guterres er hann kynnti aðgerðirnar.
Hann segir þær ætlaðar til að verjast útbreiðslu faraldursins í fátækustu ríkjum heims og mæta þörfum viðkvæmasta fólksins, einkum konum, börnum, þeim sem eldri eru og þeim sem hafa fatlanir eða langvinna sjúkdóma.
„Við megum ekki við því að missa niður þann árangur sem við höfum náð með því að fjárfesta í mannúðaraðstoð og sjálfbærnimarkmiðunum.“
Aðgerðirnar eiga að kosta um tvo milljarða Bandaríkjadala, eða rúmlega 280 milljarða króna. Áformað er að þær standi yfir frá apríl og fram í desember, sem bendir til þess að SÞ telji að slæm áhrif faraldursins vari lengur en nokkra mánuði.