„Okkar ótti verður þeirra viðskiptatækifæri“

ESB hefur áhyggjur af netglæpum í tengslum við kórónuveiruna,
ESB hefur áhyggjur af netglæpum í tengslum við kórónuveiruna, AFP

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir að netglæpir hafi aukist í ríkjum ESB síðan kórónuveiran fór á kreik.

Tölvuþrjótar hafa notfært sér þann aukna tíma sem fólk eyðir á netinu í tengslum við faraldurinn. „Þeir fylgjast með okkur á netinu og notfæra sér áhyggjur okkar vegna kórónuveirunnar. Okkar ótti verður þeirra viðskiptatækifæri,“ sagði von der Leyen og bætti við að Europol væri að reyna að hafa hendur í hári þrjótanna, því er Euobserver greindi frá.  

Thierry Breton, yfirmaður innri markaðar ESB, hefur sömuleiðis átt í samskiptum við fjarskiptafyrirtæki um hvernig er hægt að vernda tölvukerfi sambandsins gegn netglæpum.

Ursula Von der Leyen á blaðamannafundi.
Ursula Von der Leyen á blaðamannafundi. AFP

Annað eins hefur ekki sést

Sífellt fleiri sjúkrahús, rannsóknarstofur og heilbrigðismiðstöðvar hafa lent í tölvuþrjótum sem eru að reyna að komast yfir upplýsingar sem þeir geta notfært sér. „Þær óvenjulegu aðgerðir sem er verið að grípa til í dag auka hættuna á netglæpum á þann hátt að annað eins hefur ekki sést,“ sagði Lukasz Olejnik sem starfar sjálfstætt við netöryggismál. „Vandamálin sem kórónuveiran hefur í för með sér verður því miður til þess að auðveldara verður fyrir fólk að svindla með því að nota „kórónuveiru-þemað“ vegna þess að enginn þekkir það,“ bætti hann við.

Leita að ýmsum upplýsingum 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) varaði nýlega við grunsamlegum tölvupóstum þar sem reynt er að notfæra sér neyðina sem fylgir COVID-19 með því að stela peningum og viðkvæmum upplýsingum frá almenningi. Jafnframt hafa fleiri en áður reynt að brjótast inn í tölvukerfi WHO og samstarfsaðilum hennar í miðjum veirufaldaldrinum.

Þótt óljóst sé hvert markmiðið er nákvæmlega með þessum árásum öllum þá koma margar ástæður til greina. Meðal annars gætu tölvuþrjótar verið að leita að upplýsingum um lækningu við veirunni, próf og bóluefni til að selja á svörtum markaði, viðkvæmum dulkóðuðum upplýsingum til að nota til að kúga fé út úr fólki eða einfaldlega að trufla starfsemi stofnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert