Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ákveðið að fresta þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar sem hann undirritaði fyrir tíu dögum sem veita honum meðal annars heimild til að sitja í embætti í tvö kjörtímabil til viðbótar, eða til 2036.
Frestunin er liður í viðbrögðum stjórnvalda við útbreiðslu kórónuveirunnar og tilraunum til að hefta hana. Auk þess greindi Pútín frá því að allir dagar í næstu viku verða almennir frídagar, þannig að flestir vinnustaðir loka og skólahald fellur niður.
Þjóðaratkvæðagreiðslan var fyrirhuguð 22. apríl næstkomandi en verður nú frestað um óákveðinn tíma, að því er fram kom í sjónvarpsávarpi Pútíns í dag.
Pútín hvatti Rússa til að veita hver öðrum hjálparhönd og fylgja fyrirmælum heilbrigðisstarfsfólks og yfirvalda. „Allar aðgerðir sem verið að grípa til munu virka ef við sýnum samstöðu og skilning á erfiðleikum sem fylgja þessu ástandi,“ sagði Pútín.
„Styrkur samfélagsins felst í samstöðunni,“ bætti hann við.
163 tilfelli kórónuveirunnar voru staðfest í Rússlandi síðasta sólarhring og hafa aldrei jafn mörg smit greinst á einum sólarhring. Alls hafa 658 smit greinst í landinu og einn látið lífið.