„Höfum við efni á að bíða?“

Auglýsingatekjur norskra fjölmiðla dragast saman um sem svarar milljörðum íslenskra …
Auglýsingatekjur norskra fjölmiðla dragast saman um sem svarar milljörðum íslenskra króna. Er tímabært að skattleggja vefrisa á borð við Facebook, Google og fleiri í Noregi? Tveir norskir fjölmiðlamenn telja þörfina nú sem aldrei fyrr. Ljósmynd/Fotovideoweb.no

„Síðustu spár gera ráð fyrir að samdráttur auglýsingatekna í vor og sumar nemi minnst einum milljarði króna. [...] Dagljóst er að þess má bíða lengi að auglýsingamarkaðurinn sjái ljósið á ný.“

Þetta skrifa þeir Dag Sørsdahl og John Arne Markussen í grein sem norska dagblaðið Aftenposten birti í gær. Sørsdahl er forstjóri norska fjölmiðlafyrirtækisins Aller Media AS, sem rekur sextán fjölmiðla þar í landi, en Markussen er stjórnarformaður Dagbladets Stiftelse, rekstrarfélags Dagbladet.

Skrifa þeir Sørsdahl og Markussen að nú megi ekki búa lengur við það ástand að vefrisar á borð við Facebook, Google, Netflix, Amazon og Apple greiði enga skatta í Noregi þrátt fyrir að vera daglegir gestir á síma- og tölvuskjám þorra landsmanna.

Sætt blóðtöku um árabil

„Það er ekkert áhlaupaverk fyrir einareknu miðlana að rukka fyrir sitt efni samtímis því sem [norska ríkisútvarpið] NRK leggur allt sitt frítt á borðið. Bætir þá ekki úr skák að NRK fæðir einmitt Facebook með norsku efni og er þar með vatn á myllu þess viðskiptalíkans sem Facebook rekur. Það er aldeilis framlag til þeirrar þjóðarsamstöðu sem svo mikið er rætt um þessa dagana,“ skrifa þeir.

Greinarhöfundar segja norska fjölmiðla um árabil hafa sætt blóðtöku sem eigi sér engan líka svo sem fjöldi uppsagna á ritstjórnum einkamiðla beri skýran vott um. Það blóð renni til ógnarstórra alþjóðlegra samfélagsmiðla og efnisveita. „Ofan á það er okkur nauðugur einn kostur að etja kappi við NRK sem ekki kvíðir tekjumissi. Skattar landsmanna tryggja afkomuna þar á bæ hvað sem kórónuveiru og öðrum hagþáttum líður.

Sú gríðarlega aukning í lestölfræði netmiðla sem við höfum séð síðustu vikur sýnir okkur svo ekki verður um villst að þörf lesenda fyrir upplýsingar og vitneskju er meiri en nokkru sinni. Líklega hefur fjölmiðlaneysla í Noregi aldrei verið meiri,“ skrifa greinarhöfundar.

Biðlundinni takmörk sett

Segja þeir fátt styrkari burðarstoðir í upplýsingastreymi landsins en þá 150 staðarfjölmiðla sem reknir eru í Noregi. Tilvist þeirra verði að tryggja með öllum ráðum meðan moldir og menn lifa.

„Tekjustoðir norskra fjölmiðla gera ekki ráð fyrir landi sem að mestu leyti er í lamasessi í skugga hnattræns heilbrigðisáfalls. Aðgerða er þörf.“

Meðal slíkra aðgerða nefna þeir Sørsdahl og Markussen meðal annars tímabundna niðurfellingu eða verulega lækkun launatengdra gjalda, næstu tvö árin hið minnsta. Það sem fjölmiðlar þarfnist nú sé aðstoð sem tryggi að efnisframsetning fjölmiðlafólks sé ekki í hættu. Hún sé nú lífsnauðsynleg.

„Nú verður ekki beðið lengur eftir alþjóðlegri samstöðu. Frakkar og Ítalir hafa ákveðið að krefja vefrisana skatta. Fleiri þjóðir munu fylgja í kjölfarið. Að sögn New York Times íhuga nú fimmtán þjóðir að leggja á stafræna skatta.“

Má Trump einn verja hagsmuni?

Telja þeir fjölmiðlamenn norsk stjórnvöld tafarlaust eiga að leggja 22 prósenta fyrirtækjaskatt á hnattrænu netfyrirtækin. Varla geti það verið að Donald Trump Bandaríkjaforseti eigi einn rétt á því að verja viðskiptahagsmuni þjóðar sinnar.

„Norskum yfirvöldum ber skylda til að standa vörð um norska menningu, tungumál og ritstjórnarefni. [...] Hversu lengi skulu risar á borð við Facebook, Google, Netflix, Amazon og Apple fá að velta milljörðum í Noregi án þess að greiða pundið úr sínum pungi í skatt?

Höfum við efni á að bíða?“ eru lokaorð Sørsdahl og Markussen.

Fleiri greinar um áhrif vefaranna miklu í Noregi:

Kampanje

Aftenposten

Morgenbladet

Rett24

E24

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert