Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur undirritað lög sem innleiða stærsta aðgerðapakka í nútímasögu Bandaríkjanna. Á sama tíma varð ljóst að 18 þúsund tilfelli kórónuveirusýkingar hafa bæst við opinberar tölur þar í landi og er fjöldi staðfestra smita nú kominn yfir hundrað þúsund.
Að minnsta kosti 1.475 manns eru látnir í Bandaríkjunum af völdum veirunnar.
Pakkanum, sem hljóðar upp á tvær billjónir bandaríkjadala, eða um 280 þúsund milljarða íslenskra króna, er ætlað að bregðast við efnahagsáfallinu sem faraldur kórónuveirunnar hefur og mun hafa í för með sér.
Felur hann meðal annars í sér atvinnuleysisbætur fyrir einstaklinga, fjárveitingar til ríkja og risastóran björgunarsjóð fyrir þau fyrirtæki sem faraldurinn kemur illa við.
„Ég vil þakka demókrötum og repúblikönum fyrir að hafa komið saman og sett Ameríku í fyrsta sæti,“ sagði Trump við undirritunina í Hvíta húsinu.
Fyrr í dag skipaði hann bílaframleiðandanum General Motors að byrja að framleiða öndunarvélar.