Þvoið hendur!

Þessa dagana sótthreinsa allir hendur nokkrum sinnum á dag. Upphafsmaður …
Þessa dagana sótthreinsa allir hendur nokkrum sinnum á dag. Upphafsmaður þess boðskapar um miðja nítjándu öld sýndi fram á áhrif þess, en var hafður að háði og spotti. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Skipunin „þvoið hendur“ hljómar án afláts þessa dagana. Upphafsmaður þess boðskapar að handþvottur og hreinlæti gæti skipt sköpum til að stöðva smit hét Ignaz Semmelweis, sem var uppi á nítjándu öld. Boðskapur hans um mikilvægi þess að sótthreinsa hendur varð til þess að verulega dró úr dánartíðni á fæðingardeild á sjúkrahúsi í Vín, en engu að síður hlaut hann ekki hljómgrunn og var hafður að háði og spotti. Í sunnudagsblaðinu fjallar Lasse Skytt um ævi Semmelweis og arfleifð. 

Læknastéttin í Vínarborg var ekki tilbúin að láta ungan ungverskan lækni segja sér fyrir verkum og vildi ekki sitja uppi með að hafa valdið dauða fjölda kvenna vegna eigin sóðaskapar. Ekki hjálpaði til að Semmelweis var eldhugi og hikaði ekki við að kalla starfsfélaga sína „morðingja“.

Semmelweis hlaut síðar uppreisn æru og er ein af þjóðhetjum Ungverja. Framlags Semmelweis var sérstaklega minnst fyrir tveimur árum, nánar tiltekið 1. júlí þegar 200 ár voru liðin frá fæðingu hans. Nú er litið á hann sem upphafsmann kenninga um hreinlæti á sjúkrahúsum og sótthreinsun.

Ignaz Semmelweis fékk á endanum uppreisn æru.
Ignaz Semmelweis fékk á endanum uppreisn æru.

Sótthreinsun handa er þó iðulega hunsuð. Í viðtali sem tekið var í tilefni af því að Semmelweis hefði orðið 200 ára sagði Didier Pittet, prófessor og sérfræðingur í að hefta smitsjúkdóma hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO), handþvottur væri ekki tíðkaður jafn kerfisbundið og æskilegt væri.

Sagði hann að í heiminum væru hendur aðeins sótthreinsaðar í helmingi þeirra tilvika, sem ætti að gera það, þrátt fyrir að með því mætti koma í veg fyrir helming til 70% sýkinga á sjúkrahúsum.

Í löndum Evrópusambandsins verða um 3,2 milljónir manna fyrir sýkingum inni á sjúkrastofnunum á ári og leiða þær til 100 dauðsfalla á dag. Mat Pittet það svo að dauðsföll af þessum sökum gætu verið á milli fimm og sjö milljónir á ári í heiminum.

„Sótthreinsun handa með sprittlausn er ódýr og einföld og hefur samstundis áhrif á tíðni smita,“ sagði Pettit og bætti við að þrátt fyrir það væri þessi „athöfn ekki tekin nógu alvarlega, sérstaklega ekki af læknunum sjálfum“. Kvaðst hann hafa á tilfinningunni að sumir virtust halda að það væri fyrir neðan virðingu þeirra að sótthreinsa hendurnar. Allt stæði þó til bóta, fyrir tuttugu árum hefði tíðni sótthreinsana handa aðeins verið 20%, en nú væri þetta að verða vinsælasta umræðuefnið í læknavísindum. „Það mætti kalla það hefnd Semmelweis,“ sagði hann.

Það má þá segja að hefnd Semmelweis bjargi mannslífum og boðskapur hans sé ekki bara lykilatriði á sjúkrahúsum heldur á öllum vígstöðvum.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert