Fékk veiran að leika lausum hala í Ischgl?

Barþjónn á Kitzloch, vinsælum skíðabar í Ischgl, er á meðal …
Barþjónn á Kitzloch, vinsælum skíðabar í Ischgl, er á meðal þeirra fyrstu sem greindust með kórónuveiruna á skíðasvæðinu. AFP

„Ef veira ætti að velja sér einhvern stað til að þrífast á yrði Ischgl líklega fyrir valinu.“ Þannig hefst ítarleg umfjöllun danska ríkisútvarpsins um skíðabæinn vinsæla í Austurríki og hvernig fjöldi Evrópubúa smitaðist að öllum líkindum þar. Í umfjölluninni er sagt frá tölvupóstum og smáskilaboðum sem eru sögð varpa ljósi á hvernig embættismenn og ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu reyndu að fela þá staðreynd að kórónuveiran væri að breiðast út á svæðinu. 

Ráðamenn í Tíról hafa verið gagnrýndir fyrir að bregðast of seint við og jafnvel hunsað viðvaranir, meðal annars þær sem komu frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Bær­inn var skil­greind­ur hááhættu­svæði af ís­lensk­um yf­ir­völd­um 5. mars vegna fjölda Íslend­inga, og raun­ar fleiri Norður­landa­búa, sem greind­ust með kór­ónu­veiru­smit eft­ir að hafa verið þar á skíðum. Yfirvöld í Tíról hafa vísað því á bug að þau hafi ekki hlustað á íslensk yfirvöld. 

Þegar ljóst var að veiran var komin upp í bænum kölluðu yfirvöld til lækna til að skima fyrir veirunni. Þeir fengu þó eingöngu að taka sýni úr nokkrum ítölskum ferðamönnum auk konu sem þreif herbergi íslenskra ferðamanna sem greinst höfðu með veiruna. Nú hafa um 2.500 ferðamenn haft samband við neytendasamtök í Austurríki þar sem þeir hyggja á málsókn gegn ráðamönnum í Ischgl. 

Hefði átt að loka öllu 8. mars

Vinsæll skíðabar, Kitzloch, er tekinn sem dæmi þar sem veiran fékk að leika lausum hala. Barinn hefur vakið mikla athygli sökum barþjóns sem reyndist sýktur en hann smitaði líklega fjölda gesta með því að blása í flautu sem hann bar um hálsinn til að komast að með drykki þegar barinn var þétt setinn. Íslendingur telur sig til að mynda vera á meðal þeirra sem smitaðist af barþjóninum. 

Tveimur dögum eftir að íslensk yfirvöld skilgreindu Ischgl sem hááhættusvæði fengu yfirvöld í Tíról lækna til að skima fyrir veirunni í bænum. 

„En við áttum aðeins að taka sýni hjá fólki sem yfirvöld höfðu valið,“ segir læknir, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, í samstali við austurríska fjölmiðilinn Kronen Zeitung. Hann, auk fleiri lækna á svæðinu, ákváðu hins vegar að taka fleiri sýni, meðal annars til að kanna hvort um samfélagssmit væri að ræða. Barþjónninn á Kitzloch var á meðal þeirra og þegar niðurstöður úr sýnatökunni komu daginn eftir kom í ljós að hann reyndist vera sýktur. 

„Á þessum tímapunkti hefði átt að loka Ischgl alveg,“ segir læknirinn. Það var hins vegar ekki gert og daginn eftir sendu yfirvöld frá sér yfirlýsingu þar sem það var sagt ólíklegt að gestir staðarins hefðu smitast. Barnum var lokað tveimur dögum seinna og um miðjan mars var öllu skíðasvæðinu lokað. 

Bönnuðu hóteleigendum að tala við fjölmiðla

Í umfjöllun DR kemur fram að ferðaþjónustufyrirtæki hafi mikið ítök á svæðinu. Það kemur meðal annars fram í smáskilaboðum sem hátt settur embættismaður efnahagsmála í Tíról sendi eiganda Kitzloch þar sem hann biður eigandann um að loka, annars verði skíðasvæðið sett á bannlista hjá þýskum yfirvöldum. Embættismaðurinn lofar því svo að eftir tíu daga „verði þetta allt yfirstaðið“. Í umfjöllun DR segir einnig að samtök ferðaþjónustufyrirtækja í Ischgl hafi beðið eigendur hótela að tala ekki við fjölmiðla né senda þeim myndir eða myndskeið. 

Yf­ir­völd í Tíról í Aust­ur­ríki hafa falið sak­sókn­ara að rann­saka hvort bar í skíðabæn­um Ischgl hafi láðst að greina yf­ir­völd­um frá kór­ónu­veiru­smiti sem kom upp þar í lok fe­brú­ar. Þá eru austurrísk neytendasamtök sem fyrr segir að undirbúa hópmálsókn 2.500 ferðamanna gegn yfirvöldum í Tíról fyrir að bregðast of seint við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert