Daglaunafólk í Indlandi hefur orðið mjög illa úti í aðgerðum stjórnvalda gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Allt í einu stóð það uppi án atvinnu og lífsviðurværis. Milljónir reyna að komast til síns heima og er ekkert annað í boði en fara fótgangandi.
Einn þeirra er Goutam Lal Meena sem fréttamaður BBC ræddi við. Meena var nýkominn heim í þorpið sitt í Rajasthan eftir að hafa gengið heim frá nágrannaríkinu, Gujarat, þar sem hann starfaði sem múrari. Meena gekk heim, berfættur í sandölum, í þrúgandi hitanum og það eina sem hann hafði til að bíta og brenna var vatn og kex.
Í Gujarat fékk Meena allt að 400 rúpíur í laun á dag og sendi meirihluta fjárins heim. Þetta svarar til 750 króna. Þegar þriggja vikna útgöngubanni var komið á var enga vinnu né laun að fá. Útgöngubannið var sett á með fjögurra klukkustunda fyrirvara og tók gildi á miðnætti 24. mars. Þar sem samgöngubann var sett á þurftu allir að komast til síns heima fótgangandi.
„Ég gekk allan daginn og ég gekk alla nóttina. Hvaða möguleika hafði ég? Ég átti lítinn pening og nánast engan mat,“ segir Meena við fréttamann BBC.
Hann er ekki einn því víðsvegar um Indland mátti sjá milljónir daglaunafólks flýja borgir sem skelltu í lás. Fólkið hélt heim á leið til þorpa sinna. Þessi hópur er hryggjarstykkið í hagkerfi stórborganna. Fólk sem vinnur byggingarvinnu, eldar mat, þjónar, fer með vörur heim til fólks, klippir hár á hárgreiðslustofum, vinnur í bílaverksmiðjum, vinnur við pípulagnir, blaðberar og hvað sem þarf að gera svo hjól atvinnulífsins snúist í indverskri stórborg. Fólk sem hefur flúið fátæktina í þorpunum, um 100 milljónir sem búa í fátækrahverfum í útjaðri stórborga.
Útgöngubannið breytti þeim í flóttafólk á einni nóttu. Vinnustöðum þeirra var lokað og flestir launagreiðendur létu sig hverfa. Karlar, konur og börn lögðu af stað í ferðalag á hvaða tíma sólarhringsins sem var. Með eigur sínar á bakinu, mest fatnað, mat og vatn. Þegar börnin voru of þreytt til að geta gengið lengra tóku foreldrar þeirra þau í fangið og héldu göngunni áfram undir skini brennheitra sólargeisla og stjörnubjarts himins. Flest orðin peningalaus og óttinn um að svelta verður æ sterkari. „Indland gengur heim,“ segir í fyrirsögn dagblaðsins Indian Express.
Staðan nú þykir minna um margt á blóði drifna skiptingu Indlands árið 1947. Þegar milljónir voru neyddar til þess að fara til og frá Pakistan. Nú er fólkið að reyna að komast til síns heima þar sem það vonast til þess að komast í skjól. Meðal þeirra er níræð kona, Kajodi, sem gekk ásamt fjölskyldu sinni til Rajasthan, um 100 km vegalengd. Þau borðuðu kex og reyktu sígarettur til að drepa hungurtilfinninguna. Kajodi hafði gengið í þrjár klukkustundir við staf sinn þegar blaðamaðurinn Salik Ahmed hitti hana. Hún sagði honum að þetta væri það eina í stöðunni, að ganga heim þar sem engar samgöngur væru í boði. Fimm ára drengur er á leiðinni heim fótgangandi með foreldrum sínum. Þau þurfa að ganga 700 km, frá Delhí til Madhya Pradesh. „Þegar sólin sest nemum við staðar og sofum,“ segir fjölskyldufaðirinn og heldur för sinni áfram heim.