Trump talar um blóðgjöf og malaríulyf

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, hefur ákveðið að framlengja gildistíma aðgerða til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar út apríl. Áður hafði hann sagt líklegt yrði hægt að slaka á þeim í kringum páska. Trump telur að innan tveggja vikna verði hátindinum náð hvað varðar andlát af völdum veirunnar. Svo virðist sem hann sé þar að vísa í fjölda smita en óttast er að sjúkrahús landsins anni ekki fjölgun sjúklinga.

Sóttvarnalæknir forsetaembættisins, Anthony Fauci, hafði áður varað við því að kórónuveiran gæti lagt allt að 200 þúsund Bandaríkjamenn að velli. Fauci segir að það sé vel hugsanlegt að milljónir Bandaríkjamanna myndu veikjast af COVID-19. Nú þegar hafa verið staðfest yfir 143 þúsund smit. Á sunnudagskvöld voru staðfestum 2.500 dauðsföll af völdum veirunnar í Bandaríkjunum, samkvæmt upplýsingum frá Johns Hopkins háskólanum. Hvergi í heiminum hafa jafn margir greinst með veiruna og í Bandaríkjunum.

Frétt BBC

Á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í gærkvöldi sagði Trump að aðgerðir eins og að halda fjarlægð milli fólk væru að virka og að Bandaríkin yrðu á góðum batavegi í júní. Eitt það versta sem væri hægt að vera væri að lýsa yfir sigri gegn veirunni of snemma. 

Að sögn Trump hefðu allt að 2,2 milljónir Bandaríkjamanna dáið ef ekki hefði verið farið út í samkomubann og fólk beðið um að halda vissri fjarlægt. 

Trump talaði á blaðamannafundinum um nýjungar við sýnatöku sem geri það að verkum að niðurstaðan fæst á innan við fimm mínútur. Nú yrði farið í að taka sýni úr læknum, hjúkrunarfræðingum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Eins að byrjað væri að gefa 1.100 sjúklingum í New York malaríulyfið  hydroxychloroquine. „Við skulum sjá hvernig það verkar. Við gætum jafnvel átt von á ótrúlegri niðurstöðu,“ sagði Trump við blaðamenn í gærkvöldi. Hann segir að sérfræðingar séu einnig að skoða blóðgjöf til þeirra sem væru veikir og að til þess yrði notað blóð úr fólki sem hefur náð bata.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í gær vegna kórónuveirunnar.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í gær vegna kórónuveirunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert