Ungverskt lýðræði í ótímabundna sóttkví?

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Ungverska þingið hefur samþykkt tillögu þess efnis að ríkisstjórn landsins geti stjórnað landinu með tilskipunum meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur með 137 atkvæðum gegn 53. 

Tillaga þessi er ótímabundin og hefur forsætisráðherra landsins, Viktor Orban, lofað að nota þessi gífurlegu völd skynsamlega. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Peter Jakab, segir að með samþykkt tillögunnar hafi ungverskt lýðræði verið sett í sóttkví.

Einkareknum fjölmiðlum stefnt í hættu

Samþykkt tillögunnar hefur ekki aðeins hlotið gagnrýni ungverskrar stjórnarandstöðu heldur einnig frá alþjóðlegum samtökum og mannréttindafélögum, sér í lagi vegna þess að völdum ríkisstjórnarinnar er enginn tímarammi settur, en þá kveður tillagan einnig á um aðgerðir gegn rangri upplýsingagjöf, sem hætt er á að stjórnvöld misnoti til að þagga niður í einkereknum fjölmiðlum og sjálfstæðum blaðamönnum.

Talsmenn ríkisstjórnarinnar segja að ómögulegt hafi verið að setja tillögunni tímamörk því ómögulegt sé að segja til um hvenær kórónuveirufaraldrinum ljúki. Stjórnarandstaðan segist hafa verið tilbúin að styðja óskorað vald ríkisstjórnarinnar á tímum sem þessum, en að nauðsynlegt hefði verið að segja þeim tímamörk með möguleika á framlengingu.

Neyðarástand í samræmi við aðstæður

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fram­kvæmda­stjóra lýðræðis- og mann­rétt­inda­skrif­stofu ÖSE.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fram­kvæmda­stjóra lýðræðis- og mann­rétt­inda­skrif­stofu ÖSE. Ljósmynd/Rósa Braga

Í umfjöllun NBC News um málið er rætt við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fram­kvæmda­stjóra lýðræðis- og mann­rétt­inda­skrif­stofu ÖSE. Þar segir hún að ljóst sé að ríki þurfi að bregðast hratt við útbreiðslu kórónuveirunnar.

„Ég skil að óvenjulegar aðgerðir geti þurft til. Hins vegar þarf neyðarástand, hvar sem því er lýst yfir og af hvaða ástæðu sem er, að vera í samræmi við aðstæður og gilda ekki lengur en nauðsynlegt er.“

Neyðarástandi var lýst yfir í Ungverjalandi 11. mars. Þar hafa 447 kórónuveirusmit verið staðfest og 15 hafa látist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka