563 dauðsföll af völdum kórónuveirunnar voru staðfest í Bretlandi síðastliðinn sólarhring og er þetta í fyrsta skipti sem tala látinna fer yfir 500 á einum sólahring. Samtals hafa 2.352 látist af völdum veirunnar í landinu. Heilbrigðisráðherra landsins greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni. AFP-fréttastofan greinir frá. Staðfest smit í Bretlandi eru nú 29.474.
Fjölgun smitaðra og alvarlega veikra eykur álagið verulega á heilbrigðiskerfið og einhver sjúkrahús eru farin að kvarta undan skorti á hlífðarbúnaði fyrir starfsfólk. Læknar á sjúkrahúsinu í Essex hafa varað við því að þeir gætu þurft að takmarka aðstoð við sjúklinga ef þeir fá ekki meira af hlífðarbúnaði á sjúkrahúsið. Það skipti öllu máli. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Í bréfi sem starfsfólk Southend sjúkrahússins sendi forstjóranum segist þeim líða eins og óþekkum krökkum að krefjast þess að fá meira af hlífðarbúnaði. Forstjórar sjúkrahúsanna segjast hins vegar vera að fara eftir leiðbeiningum frá hinu opinbera. Á blaðamannafundi í gær bað staðgengill heilbrigðisráðherra landsins heilbrigðisstarfsfólk afsökunar á töfum við dreifingu á búnaðnum. Jafnframt var tekið fram að birgðirnar væri nægar í landinu og að búnaðurinn færi á þá staði þar sem hann væri nauðsynlegur.