Mikil fjölgun smita og 239 látnir í Svíþjóð

Alls eru 239 látnir í Svíþjóð af völdum kórónuveirunnar en staðfest smit eru 4.947 talsins. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag. Settar hafa verið reglur varðandi samkomubann og hefur verið ákveðið að loka skíðasvæðum fyrir páska. Landlæknir hvetur fólk til þess að halda sig heima. 

Frétt SVT

Verslanir og verslunarmiðstöðvar eiga að takmarka fjölda viðskiptavina og koma upp leiðum til þess að tryggja nægjanlega langt bil á milli viðskiptavinum í biðröðum. Íþróttafélög eru beðin um að halda æfingar utandyra og aflýsa kappleikjum og keppnum. 

Vinnuveitendur eiga að tryggja að starfsfólk og gestir haldi vissri fjarlægð sín á milli. Eins er almenningssamgöngufyrirtækjum gert að takmarka fjölda þeirra sem ferðast á sama tíma og koma þannig í veg fyrir að strætisvagnar séu yfirfullir. 

Jafnframt eru heimsóknir á dvalarheimili bannaðar og eldra fólki bent á að vera ekki í nánums samskiptum við aðra. 

Í síðustu viku var samkomubannið þrengt úr 500 í 50 manns. Þetta var ákveðið á ríkisstjórnarfundi á föstudag og tóku breytingarnar gildi á sunnudag. Þeir sem skipuleggja viðburði þar sem reglurnar eru brotnar eiga yfir höfði sér sekt eða fangelsisdóm. 

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, hvetur landsmenn til þess að ferðast ekki á milli landshluta. „Ef þið þurfið ekki að ferðast haldið ykkur heima. Þetta er orðið alvarlegt.“

Prófessor í tölfræði við háskólann í Stokkhólmi, Tom Britton, segir að hætta sé á að helmingar sænsku þjóðarinnar verði smituð af kórónuveirunni í lok apríl. Hann mælir með því að fólki geri sjálfum sér og öðrum þann greiða að halda sig heima í apríl. 

Frétt SVT

Frá blaðamannafundi almannavarna í Svíþjóð í dag.
Frá blaðamannafundi almannavarna í Svíþjóð í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert