Mýtur um kórónuveiruna sem ber að varast

Sítrónusafi kemur ekki í veg fyrir kórónuveirusýkingu.
Sítrónusafi kemur ekki í veg fyrir kórónuveirusýkingu.

Lyfjastofnun og Matvælastofnun hafa séð sig knúnar til að gefa út tilmæli til fólks þar sem mýtur um kórónuveiruna eru hraktar. Lyfjastofnun segir ekkert benda til þess að notkun bólgueyðandi eða blóðþrýstingslyfja hafi slæm áhrif á fólk með COVID-19 og Matvælastofnun bendir á að engin fæðubótarefni eða önnur matvæli geti komið í veg fyrir kórónuveirusýkingu.

En hvaða aðrar mýtur um kórónuveiruna eru þarna úti og ber að forðast? Rangar upplýsingar á fordæmalausum tímum sem þessum geta haft mjög alvarlegar afleiðingar. Til að nefna dæmi þá hafa hundruð látist í Íran vegna ranghugmyndar sem þar gengur um að drykkja metanóls geti komið í veg fyrir að fólk veikist af kórónuveirunni.

Þó eru ekki allar mýturnar svo hættulegar, en allar eru þær þó hættulegar að því leyti að þær geta veitt falskt öryggi. Í nýju myndskeiði fréttastofu BBC fer blaðamaðurinn Chris Morris yfir nokkrar nýlegar mýtur um kórónuveiruna sem ber að varast.

Meðal þeirra er sú staðhæfing að sítrónusafi geti varið fólk fyrir COVID-19 og að fólk geti smitast af COVID-19 í gegnum bit moskítóflugu. Í myndskeiðinu útskýrir Morris að þrátt fyrir fjölmargar staðhæfingar þess efnis að hvers kyns matvæli geti komið í veg fyrir kórónuveirusýkingu hafi verið hraktar virðist margir enn trúa á mátt sítrónusafans. Sítrónur séu í sjálfu sér hollar eins og aðrir ávextir og neysla þeirra hafi vissulega góð áhrif á heilsuna, en þær komi ekki í veg fyrir kórónuveirusmit. Þá sé vitað að margir sjúkdómar geti smitast manna á milli með moskítóflugum, en að ekkert bendi til þess að COVID-19 smitist á þann veg, enda sé hann öndunarfærasjúkdómur.

Loks er það orðrómur í sumum löndum að fólk geti fengið „ókeypis“ kórónuveirupróf fari það í blóðbanka og gefi blóð. Þetta segir Morris alrangt. Það síðasta sem blóðbankar vilji sé að þangað komi veikt fólk, auk þess sem ekki er hægt að smitast af COVID-19 í gegnum blóðgjöf.

Falskt öryggi í grímum og hönskum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur á upplýsingafundum um kórónuveiruna reglulega nefnt hanska og grímur í tengslum við hluti sem geta veitt falskt öryggi á tímum heimsfaraldurs. Hefur Þórólfur til dæmis bent á að andlitsgrímur virki aðeins í nokkrar klukkustundir í senn og að fæstir noti hanskana rétt þannig að koma megi í veg fyrir smit.

Þá sé það einstaklega mikilvægt að búnaður sem þessi, sem nánast er slegist um á heimsvísu, sé sparaður fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert