Réttur transfólks í Ungverjalandi verður þurrkaður út ef drög að frumvarpi verða samþykkt af þinginu á næstunni. Ungverska þingið samþykkti tillögu þess efnis að ríkisstjórn landsins geti stjórnað landinu með tilskipunum meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur með 137 atkvæðum gegn 53.
Forsætisráðherra landsins, Viktor Orban, lofaði að nota þessi gífurlegu völd skynsamlega þegar tillagan var samþykkt. Annað virðist vera að koma í ljós með fyrrgreindu frumvarpi sem snýr ekki að kórónuveirufaraldrinum.
Ef frumvarpið verður samþykkt hefur réttur einstaklinga til að tjá sitt eigið kyn verið þurrkaður út. Í frumvarpinu segir að kyn einstaklinga skuli ákvarðast af kyni við fæðingu.
Þetta mál er eitt af mörgum sem er að finna í fyrrgreindu frumvarpi sem hafa ekkert með útbreiðslu kórónuveirunnar að gera.
Leiðtogi stjórnarandstöðunnar, Peter Jakab, sagði að þegar tillagan um aukin völd ríkisstjórnarinnr var samþykkt hefði ungverskt lýðræði verið sett í sóttkví.