Hætta að nota lyfið við veirunni vegna aukaverkana

Frá Östra-sjúkrahúsinu í Gautaborg. Með hjálp hersins hefur verið komið …
Frá Östra-sjúkrahúsinu í Gautaborg. Með hjálp hersins hefur verið komið upp tuttugu gjörgæslurúmum fyrir utan sjúkrahúsið. AFP

Ákveðið hefur verið að notast ekki við lyfið Chloroquine við meðferð þeirra sem sýkst hafa af kórónuveirunni í Gautaborg og Vestur-Gautlandi, eftir að í ljós komu alvarlegar aukaverkanir. Þegar höfðu þá nokkrir veikir einstaklingar fengið lyfið, sem jafnan er notað við malaríu.

Athygli hefur áður verið vakin á virkni lyfsins gegn COVID-19-sjúkdómnum sem veiran veldur. Sjúk­ling­ar sem leggj­ast inn á Land­spít­al­ann til meðferðar fá þannig bæði malaríu­lyf og sýkla­lyf sem sam­an eiga meðal ann­ars að draga úr líf­væn­leika veirunn­ar í lungna­frum­um.

50 þúsund pakkar á leið til Íslands

Már Kristjáns­son, yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans, sagði svo í sam­tali við mbl.is 21. mars:

„Það eru gögn sem styðja það. Malaríu­lyf sem er kallað Chloroquine og af­leiða af því sem er kallað Hydroxychloroquine eða Plaqu­enil og sýkla­lyf sem er kallað Zitrom­ax. Við erum að nota þetta sam­an á sjúk­linga sem leggj­ast inn vegna COVID-19-veik­inda.“

Fimmtíu þúsund pakkar af lyfinu eru aukinheldur væntanlegir til Íslands um helgina, í boði lyfjafyrirtækisins Alvogens, en pakkana keypti það á Indlandi. Á lyfið að duga til meðferðar 25 þúsund sjúklinga hér á landi.

Í Gautaborg hefur reynslan þó verið á hinn bóginn — svo virðist sem chloroquine geti þvert á móti haft slæmar afleiðingar fyrir þá sjúklinga sem lyfið er gefið.

„Þess vegna höfum við í Gautaborg og Vestur-Gautlandi ákveðið að notast ekki við lyfið,“ segir Magnus Gisslén, prófessor og yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Östra-sjúkrahússins í Gautaborg, í samtali við sænska ríkissjónvarpið en viðtalið birtist í gær á vef þess.

Héldu að lyfið væri tiltölulega skaðlaust

Lyfið Plaquenil inniheldur afleiðu af Chloroquine, svonefnt Hydroxychloroquine.
Lyfið Plaquenil inniheldur afleiðu af Chloroquine, svonefnt Hydroxychloroquine. AFP

Bent er þar á að hafi menn leitað logandi ljósi að lyfi sem þegar sé til og geti virkað gegn þeirri bólgu sem COVID-19 getur valdið í lungum fólks.

Sænska lyfjaráðið hafi þegar leyft til bráðabirgða notkun lyfsins Remdesivir, sem yfirleitt er notað við ebólu. Læknar og vísindamenn erlendis hafi sömuleiðis lofað virkni lyfsins Chloroquine.

„Við vissum að það hafði þegar verið notað í Kína og á Ítalíu, og svo byrjuðum við að nota það líka. Við héldum að þetta væri tiltölulega skaðlaust lyf með fáeinar aukaverkanir,“ segir Gisslén.

Eftir að fregnir fóru í kjölfarið að berast af alvarlegum aukaverkunum lyfsins var ákveðið að hætta notkun lyfsins.

„Við getum ekki útilokað að alvarlegar aukaverkanir geti átt sér stað og jafnvel að batahorfurnar kunni að skerðast við notkun lyfsins. Þess vegna höfum við í Gautaborg, og í Vestur-Gautlandi, ákveðið að nota það ekki.“

Hann bætir þó við að ákvörðunin kunni að vera endurskoðuð komi á sjónarsviðið ný gögn sem sýni fram á annað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert