Búa sig undir versta áfall til þessa

Í þessu gistiskýli fyrir heimilislausa í Höfðaborg í Suður-Afríku hefur …
Í þessu gistiskýli fyrir heimilislausa í Höfðaborg í Suður-Afríku hefur tveggja metra mannhelgi verið komið á. Efnahagurinn í Suður-Afríku mun líklega þola mikið högg vegna kórónuveirufaraldursins, og er landið þó best sett Afríkuríkja. AFP

Komi Afríkuríki ekki böndum á kórónuveirufaraldurinn í tæka tíð verður efnahagslegi skaðinn sem af hlýst einsdæmi í sögu álfunnar. „Við sjáum þá gersamlegt hrun hagkerfa og lífsviðurværis á þessum stöðum. Lífsviðurværi fólks verður þurrkað út í slíkum mæli að við höfum aldrei séð annað eins,“ segir Ahunna Eziakonwa, svæðisstjóri í þróunarstarfi Sameinuðu þjóðanna í Afríku, í samtali við AP.

Vinnumarkaður í flestum Afríkuríkjum grundvallast á innflutningi og útflutningi. Þegar slíku er ekki lengur til að dreifa frýs hagkerfið gersamlega, segir Eziakonwa. „Og þá getum við kvatt störfin.“ Hún talar um að komið geti til versta áfalls í sögu þessarar fátækustu heimsálfu heims, þar sem búa 1,2 milljarðar manna.

Meirihluti Afríkuríkjanna 54 hefur gripið til aðgerða vegna faraldursins, hvort sem það er útgöngubann, ferðabann eða aðrar aðgerðir til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar. Það gildir allt frá Suður-Afríku, „þróaðasta“ landi heimsálfunnar, og til Úganda, þar sem óformlegur geiri efnahagslífsins er helmingur vergrar landsframleiðslu.

Þessi óformlegi geiri efnahagslífsins er mikið áhyggjuefni. Með honum er átt við vinnu sem er ekki skráð opinberlega og nýtur ekki viðurkenningar hins opinbera, sem sé „svört vinna“ hvers konar eða heimilisstörf, til dæmis. Þar sem þetta er jafnstór hluti af hagkerfum og dæmi eru um í Afríku er hætta á að ríkisaðstoð sú sem kann að koma til nái einfaldlega alls ekki þangað sem hennar er mest þörf. Að sögn Eziakonwa er þessi geiri meðal þeirra sem verða fyrir mesta högginu, ásamt flugi, þjónustustörfum, námugreftri og landbúnaði. Ef fram heldur sem horfir verður atvinnusköpun helmingi minni en gert var ráð fyrir í hagspám.

Þar sem fjárhagsstaða ríkja er þegar bág er hætta á að sú innspýting sem heilbrigðiskerfi þurfi geti komið ríkjum í endanlegt gjaldþrot. Forsætisráðherra Eþíópíu hefur talað um að ógn stafi af faraldrinum sem geti virkilega kippt stoðunum undan efnahag fjölda ríkjanna. Á fundi leiðtoga Afríkuríkjanna komust ráðherrar að þeirri niðurstöðu að heimsálfan þyrfti verulegt fjármagn frá G20-ríkjunum. Upphæðir sem voru nefndar skipta hundruðum milljarða bandaríkjadala en engu hefur verið lofað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka