Franska blaðakonan Francesca Gee hefur greint frá því að barnaníðingurinn og rithöfundurinn Gabriel Matzneff hafi misnotað hana og stjórnað henni þegar hún var á barnsaldri. Gee er önnur konan sem rýfur þögnina um níðinginn á stuttum tíma.
Gee segir að hún hafi verið í sambandi með Matzneff í þrjú ár á áttunda áratug síðustu aldar. Þegar hann var 37 ára gamall og hún 15 ára hafi hann sótt hana í skólann á hverjum degi.
Að sögn Gee hvatti rithöfundurinn hana til að skrifa tvíræð bréf og birti hann þau síðan í bókum sínum gegn hennar vilja. Má þar nefna bók Les Moins de Seize Ans þar sem Matzneff lofsyngur barnaníð. Hann grobbar sig jafnvel af því í skrifum sínum að hafa fengið hana flutta í mikilsmetinn menntaskóla í París svo hún væri nær honum.
Í yfirlýsingu frá Gee kemur fram að hún hafi verið fórnarlamb dýrslegrar hegðunar hans og að hún hafi áratugum saman reynt án árangurs að fá eitt af útgáfufélögunum sem gefa út bækur hans, Gallimard, til að hætta að birta mynd af henni á bókarkápu bókar hans, Ivre du vin perdu.
Gallimard hefur nú hætt að selja bækur Matzneff og innkallað þær sem þegar voru í bókabúðum. Þrátt fyrir að Matzneff hafi aldrei farið dult með barnagirnd sína gagnvart stúlkum og drengjum hefur hann hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín í Frakklandi.
Það var ekki fyrr en um áramótin að viðhorfið gagnvart honum breyttist mikið eftir að Vanessa Springora, sem er þekktur ritstjóri í Frakklandi, gaf út bók þar sem hún lýsti því hvernig hann hafði níðst á henni þegar hún var barn.
Matzneff flúði til Ítalíu eftir að bók hennar kom út en hann hefur verið ákærður fyrir barnaníð og er nú rannsakað hvort hann hafi gerst sekur um nauðgun.
Gee segir í samtali við New York Times að hún hafi upplýst um gjörðir Matzneff í bók sem hún skrifaði árið 2004 en enginn útgefandi hafi viljað gefa hana út. „Hann hætti aldrei að nota mig til þess að réttlæta kynferðislega misnotkun sína á börnum og unglingum,“ segir Gee.
Að hennar sögn voru margir ritstjórar hjá forlögum hrifnir af handritinu en segja í samtali við NYT að heimurinn hafi einfaldlega ekki verið reiðubúinn fyrir svona skrif á þeim tíma.
Ritstjóri hjá Grasset, sem gaf út bók Springora, Consent, er einn þeirra sem höfnuðu Gee og sagði umfjöllunarefnið of viðkvæmt og að Matzneff ætti áhrifamikla vini hjá forlaginu.
Gee, sem er fyrrverandi blaðakona, segir við New York Times að Matzneff hafi farið með henni til kvensjúkdómalæknis í sex skipti á áttunda áratugnum til að fá getnaðarvarnarpilluna. Á þeim tíma var hún enn á barnsaldri.
Kvensjúkdómalæknirinn, Michèle Barzach, varð síðar heilbrigðisráðherra Frakklands og yfirmaður UNICEF í Frakklandi. Hún tók meðal annars þátt í því að herða löggjöf Frakka gegn barnaníði árið 1985.
Eftir að sambandi Matzneff og Gee lauk 1976 hélt hann áfram að fara með aðrar stúlkur á barnsaldri til Barzach og hún skrifaði upp á getnaðarvarnapillur fyrir þær. Gee segir að læknirinn hafi aldrei séð ástæðu til þess að fetta fingur út í að 37 ára gamall karl kæmi með 15 ára gamalt barn og fengi pilluna fyrir barnið.
Matzneff hefur oft haldið því fram að þær Gee og Springora séu tvær af þeim þremur sem hann hafi elskað mest um ævina. Hann tileinkaði þeim bækur, ritgerðir og ljóð á sínum tíma en á þeim tíma sem hann átti í sambandi við þær voru þær börn. Gee minnist þess þegar hún hitti Matzneff í fyrsta skipti í París árið 1973 en þá var hún með móður sinni sem hafði þekkt hann árum saman.
David Gee, yngri bróðir Gee, segir að foreldrar þeirra hafi reglulega boðið rithöfundinum í matarboð. Faðir þeirra, breskur blaðamaður sem starfaði í París, var mjög hrifinn af Matzneff og nýtti sér það að kynnast þekktu fólki í gegnum rithöfundinn.