Boris Johnson segist vera brattur þrátt fyrir að hafa dvalið á sjúkrahúsi í nótt. Breski forsætisráðherrann var fluttur á St. Thomas-sjúkrahúsið í London í gærkvöldi til rannsóknar tíu dögum eftir að hann greindist með kórónuveiruna. Hann var með einkenni veirunnar, þar á meðal hita og hósta.
Johnson verður áfram við stjórnvölinn í Bretlandi þrátt fyrir að Dominic Raab, utanríkisráðherra landsins, hafi stjórnað fundi í morgun vegna veirunnar.
Í tísti sagði Johnson, sem er 55 ára, að hann „væri í sambandi við liðið mitt við að berjast í sameiningu gegn þessari veiru og við að tryggja öryggi allra“, að því er BBC greindi frá.
Hann þakkaði einnig „frábæru starfsfólki heilsugæslunnar“ fyrir að meðhöndla hann og aðra sjúklinga. „Þið eruð þau bestu í Bretlandi.“
Last night, on the advice of my doctor, I went into hospital for some routine tests as I’m still experiencing coronavirus symptoms. I’m in good spirits and keeping in touch with my team, as we work together to fight this virus and keep everyone safe.
— Boris Johnson #StayHomeSaveLives (@BorisJohnson) April 6, 2020
Talsmaður forsætisráðherrans sagði að hann yrði áfram undir eftirliti á sjúkrahúsinu og sagði rússneskar fregnir um að hann væri kominn í öndunarvél rangar.
Í síðasta mánuði sagði talsmaðurinn að ef Johnson veiktist og gæti ekki unnið myndi Raab hlaupa í skarðið fyrir hann.