„Hálfviti“ sem braut reglurnar

Útgöngubann er í gildi í Nýja-Sjálandi og þar af leiðandi …
Útgöngubann er í gildi í Nýja-Sjálandi og þar af leiðandi nánast enginn á ferli. AFP

Heilbrigðisráðherra Nýja-Sjálands kallaði sjálfan sig „hálfvita“ eftir að hann braut reglur um útgöngubann í landinu þegar hann keyrði með fjölskyldu sína á ströndina síðustu helgina í mars.

David Clark viðurkenndi að aksturinn væri hreint og klárt brot á útgöngubanni sem sett var á í landinu 25. mars.

Hann bauðst til að segja af sér en Jacinda Ardern, forsætisráðherra landsins, hafnaði afsögn hans vegna stöðunnar í tengslum við kórónuveirufaraldurinn.

„Ég brást mínu fólki og hagaði mér eins og hálfviti,“ sagði Clark um málið.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Ardern sagði að fólk gæti fengið sér ferskt loft en væri beðið að forðast að fara lengri vegalengdir. Clark keyrði 20 kílómetra frá heimili sínu.

„Ráðherrann hefði átt að fara eftir reglunum,“ sagði Ardern.

Rúmlega 1.100 tilfelli kórónuveirunnar hafa verið staðfest í Nýja-Sjálandi og eitt dauðsfall.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert