Smitið áfall, en ekki alveg nógu mikið

Íslendingar voru á meðal þeirra sem smituðust eftir að hafa …
Íslendingar voru á meðal þeirra sem smituðust eftir að hafa komið á þennan bar og hlýtt á þjóninn með flautuna. Að minnsta kosti einn þeirra tekur nú þátt í hópmálsókn á hendur yfirvöldum í Tíról, sem voru of lengi að gefa veitingamönnum fyrirmæli um að loka. AFP

Þýska barþjóninum er löngu batnað, sem kvað hafa gengið um og smitað mann og annan af COVID-19 með dómaraflautu sinni á troðfullum skíðabarnum Kitzloch í skíðabænum Ischgl í Austurríki í lok febrúar. Vesalings maðurinn er af yfirvöldum í Tíról staðfastlega sagður fyrsti COVID-19-sjúklingurinn í fylkinu, þó að síðar hafi komið í ljós að tilfellin voru þegar orðin nokkur fyrir hans smit.

Yfirmaður þjónsins og eigandi Kitzloch, veitingamaðurinn Bernhard Zangerl, steig í dag fram með sína hlið af málinu í viðtali við vefútgáfu vikuritsins þýska Focus. Hann segir þar frá því að yfirvöld hafi haft samband í byrjun mars þegar smit hafði greinst hjá Íslendingum sem höfðu nokkru áður verið gestir hans.

Það var ekki eftir skipulögðum verkferlum sem næstu skref voru tekin. Þegar tíðindin frá Íslandi spurðust í byrjun mars var látið nægja að spyrja starfsfólkið hvort það fyndi fyrir einkennum. Barinn hélt áfram störfum. 7. mars var barþjónninn alræmdi greindur með smit. „Það var áfall“ segir Zangerl, en þó ekki slíkt að barnum væri lokað, heldur voru þjónar settir í sóttkví, enda flestir einnig sýktir, og heilt varalið af starfsfólki kom í staðinn. Sömu kokkar héldu áfram störfum, sem Zangerl segir ekki hafa verið smitaða. Enn hélt barinn áfram störfum.

Og eftir á að hyggja, spyr blaðamaður Focus veitingamanninn að rakinni þessari rás atburða, myndirðu segja að það hafi verið mistök að loka barnum ekki strax á þessum tímapunkti?

„Eftir á að hyggja voru það mikil mistök,“ viðurkennir Zangerl.

„Við álösum okkur auðvitað fyrir að hafa ekki lokað Kitzloch strax. En við hlustuðum bara á sérfræðinga yfirvalda í trausti þess að þeir væru að gefa okkur réttar leiðbeiningar. Við hefðum átt að loka um leið og starfsmaðurinn var greindur með smit. Okkar markmið er náttúrlega alltaf að hafa hérna eins marga og mögulegt er hverju sinni,“ segir Zangerl. Þeim mun fleiri smituðust og það var fólk frá öllum löndum sem grandalaust ferðaðist síðan heim á leið eftir stutta viðdvöl, í sérstaklega mörgum tilvikum með kórónuveirusmit með í farteskinu.

Ráðamenn gætu þurft að mæta afleiðingum

Á meðal þessara ferðamanna voru Íslendingar. Einn Íslendinganna, sem „kom á þennan fræga bar og heyrði í flautunni“, lýsti því í viðtali við mbl.is að á Kitzloch væri „mikið stuð og stemn­ing og mikið borið út af víni og barþjón­arn­ir eru all­ir með flautu um háls­inn eins og íþrótta­dóm­ar­ar og þegar bar­inn er orðinn mjög troðinn og þeir með fulla bakka blása þeir í þess­ar flaut­ur“. Daginn eftir heimkomu frá Ischgl fór maðurinn að finna fyrir einkennum en hafði sem betur fer komið sér haganlega fyrir í sjálfskipaðri sóttkví beint eftir flugið heim. Hann reyndist smitaður, rétt eins og barþjónarnir.

Ischgl, ásamt öðrum austurrískum og ítölskum skíðasvæðum, hefur ekki aðeins fengið holskeflu af misfögrum frásögnum um sig í fjölmiðlum um allan heim vegna þessara smita, heldur bendir allt til þess að afleiðingarnar verði einnig formlegar. Annar Íslendingur sem var í Ischgl á þessum tíma er þannig á meðal þeirra sem taka þátt í hópmálsókn á hendur yfirvöldum í Tíról en ráðamenn virðast, af frásögn veitingamannsins að dæma, bera mesta ábyrgðina á óþarflega skjótri útbreiðslu meðal skíðagesta á svæðinu í mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert