Bernie Sanders hefur ákveðið sækjast ekki lengur eftir tilnefningu Demókrataflokksins til embættis forseta Bandaríkjanna. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Eftir að Sanders tapaði fyrir Joe Biden í forvali í þremur ríkjum Bandaríkjanna um miðjan mars sagðist hann ætla að íhuga stöðu sína.
Today I am suspending my campaign. But while the campaign ends, the struggle for justice continues on. https://t.co/MYc7kt2b16
— Bernie Sanders (@BernieSanders) April 8, 2020
Landsþingi bandaríska Demókrataflokksins var á dögunum frestað til 17. ágúst vegna kórónuveirunnar.
Þar með er leiðin greið fyrir Joe Biden sem frambjóðandi Demókrataflokksins í baráttunni við Donald Trump Bandaríkjaforseta í nóvember næstkomandi.
Sanders er 78 ára vinstrisinni sem atti kappi við Hillary Clinton um forsetatilnefningu Demókrataflokksins árið 2016. Hann hélt starfsmannafund í gegnum fjarfundabúnað þar sem hann „tilkynnti að hann ætlar að hætta baráttu sinni um forsetaembættið“, sögðu aðstoðarmenn hans í tilkynningu.
Sanders var efstur á blaði demókrata fyrr á þessu ári í kapphlaupinu en Biden, sem er fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, hefur sótt mjög í sig veðrið síðan þá.
Fréttin hefur verið uppfærð