Svartir Bandaríkjamenn virðast fara verr út úr faraldri kórónuveirunnar samkvæmt greiningu á gögnum um smit og dauðsföll í landinu. Í samfélögum þar sem svartir eru í meirihluta eru líkurnar þrisvar sinnum meiri á að smitast og líkurnar á að deyja af völdum Covid-19 eru nærri sex sinnum meiri en í samfélögum þar sem hvítir eru í meirihluta.
Dánartölur í Bandaríkjunum hækka nú hratt og gögnin um faraldurinn hrannast upp. Í ítarlegri greiningu Washington Post kemur fram að í Milwaukeesýslu í Wisconsinríki, þar sem stærsta borg ríkisins er, er hlutfall svartra í kringum 26% í heildaríbúafjölda. Hins vegar er hlutfall þeirra á meðal látinna 76%. Í Louisiana eru svartir íbúar um 32% af heildinni en 70% látinna. Í Chicago eru svartir einungis um 32% heildarinnar en þrátt fyrir það eru 67% látinna í borginni svört.
Þetta er ekki alltaf raunin. Í Flórída eru svartir 16% látinna sem er frekar í samræmi við heildarfjölda þeirra í ríkinu þar sem þeir telja um 15% heildarinnar. Tölurnar á þessum stöðum eru auðvitað ekki jafn háar og þær eru í New York þar sem nærri helmingur allra látinna í Bandaríkjunum er. Tölur um kynþætti hafa þó ekki borist frá New York, hins vegar hafa þær gert það í Michigan þar sem faraldurinn hefur verið skæður. Þar eru svartir 41% látinna en eru einungis 14% heildarinnar.
Á daglegum fundi í gær var Trump Bandaríkjaforseti spurður út í þessar tölur. „Af hverju er hlutfallið þrisvar til fjórum sinnum hærra á meðal svartra samfélaga en annarra?“ spurði hann. „Það er óskiljanlegt og ég kann illa við það,“ sagði forsetinn og bætti því við að von væri á ítarlegri gögnum um málið.
Almennt heilsufar svartra er verra í Bandaríkjunum þar sem þeir eru útsettari fyrir hjartasjúkdómum, sykursýki og lungnasjúkdómum. Líkt og oft hefur komið fram eru þetta áhættuþættir þegar kórónuveiran er annars vegar. Anthony Fauci, yfirmaður ofnæmis- og sóttvarnasjúkdóma í landinu, var einnig spurður út í ástandið og hann sagði að sjaldan eða aldrei hefðu skilin í heilsufari kynþátta í Bandaríkjunum verið greinilegri. Ástandið væri óviðunandi.