Náðu ekki samkomulagi um aðgerðapakka ESB

Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, ásamt ráðgjöfum, á fjarfundi fjármálaráðherra …
Bruno Le Maire, efnahagsráðherra Frakklands, ásamt ráðgjöfum, á fjarfundi fjármálaráðherra Evrópusambandsríkjanna sem lauk í morgun eftir 16 tíma árangurslausar viðræður um aðgerðapakka ESB vegna kórónuveirufaraldursins. Fundarhöld halda áfram í dag. AFP

Fjár­málaráðherr­um Evr­ópu­sam­bands­ríkj­anna tókst ekki að kom­ast að sam­komu­lagi um sam­eig­in­leg­an aðgerðapakka vegna efna­hags­áhrifa kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins á maraþon­fundi sem lauk und­ir morg­un. 

Sam­kvæmt frétt AFP var það afstaða ít­alskra yf­ir­valda sem gerði út­slagið, en Ítal­ir, auk Spán­verja og Frakka, vilja leysa skulda­vand­ann með út­gáfu sér­stakra kór­ónu­skulda­bréfa sem öll aðild­ar­rík­in taki þátt í að greiða. 

„Eft­ir 16 klukku­stunda samn­ingaviðræður nálguðumst við niður­stöðu en erum ekki kom­in þangað enn þá. Ég sleit fundi en við höld­um áfram í dag, fimmtu­dag,“ seg­ir Mario Centeno, sem fer fyr­ir evru­hópn­um, þar sem all­ir fjár­málaráðherr­ar aðild­ar­ríkj­anna eiga sæti.

Mario Centeno, fjármálaráðherra Portúgal og forsvarsmaður evruhópsins.
Mario Centeno, fjár­málaráðherra Portúgal og for­svarsmaður evru­hóps­ins. AFP

Ágrein­ing­ur­inn ligg­ur helst milli ríkja í norðanveðri og sunn­an­verðri álf­unni. Ítal­ir og Spán­verj­ar hafa þannig sakað ríki á borð við Þýska­land og Hol­land um aðgerðal­eysi. Rík­in sem hafa orðið hvað verst úti í far­aldr­in­um, líkt og Ítal­ía og Spánn, vilja gefa út kór­ónu­skulda­bréf en Þjóðverj­ar og fleiri auðugri ríki inn­an sam­bands­ins virðast ekki vera til­bú­in að veita verr sett­um ríkj­um frek­ari aðstoð en þegar hef­ur verið samþykkt. 

Þjóðverj­ar vilja fara svipaða leið og var far­in eft­ir efna­hags­hrunið 2008 og setja upp sér­stak­an lána­sjóð. Þá eru fjár­málaráðherr­arn­ir sagði vera sam­mála um þrjár leiðir. Í fyrsta lagi að nýta rúm­lega 400 millj­arða evra stöðug­leika­sjóð ESB, í öðru lagi að nýta fjár­fest­inga­sjóð sam­bands­ins og í þriðja lagi nýta nýj­an 100 millj­arða evra sjóð sem er hugsaður fyr­ir starfs­fólk og fyr­ir­tæki sem verða fyr­ir höggi af völd­um far­ald­urs­ins.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert