Níundi apríl 1940 er dagsetning sem greypt er í norska þjóðarsál. Nóttin sem þýskur innrásarher réðst inn í Noreg og lyfti ekki járnhæl sínum af landinu fyrr en vorið 1945. Árásin kom Norðmönnum fullkomlega í opna skjöldu en síðar átti norsk andspyrnuhreyfing eftir að gera þýska innrásarliðinu marga skráveifuna í aðgerðum sem Þjóðverjar áttu í vök að verjast gagnvart þrátt fyrir að njóta liðsinnis hins norska Vidkun Abraham Lauritz Jonssøn Quisling og norska þjóðernisflokksins Nasjonal samling sem hann stýrði.
Quisling var skömmu eftir stríðslok stillt upp fyrir framan aftökusveit við Akershus-kastalann í Ósló að morgni 24. október 1945 og skotinn þar til bana fyrir landráð, í kjölfar dóms í ágúst sama ár fyrir að hafa stutt og vitað af innrás Þjóðverja, tekið þátt í að senda gyðinga í útrýmingarbúðir nasista og eins tekið virkan þátt í að þýskir hermenn myrtu liðsmenn norsku andspyrnuhreyfingarinnar.
Carl J. Hambro, norskur blaðamaður, forseti norska Stórþingsins og á sínum tíma forseti þings Þjóðabandalagsins, ritaði um innrásina bókina Árásin á Noreg sama ár. Segist honum þar svo frá um það þegar loftvarnaflauturnar gullu um alla Ósló aðfaranótt 9. apríl: „Þeir svartsýnni báru kvíðboga fyrir örlögum Danmerkur, en enginn trúði því í raun og veru, að nein hætta vofði yfir Noregi. En þrátt fyrir það var fólk alvarlega hugsandi. Skugginn af örlögum Finnlands í síðasta mánuði grúfði enn yfir hugum allra. Enginn var glaður og allir voru kvíðandi um framtíðina.“
Klukkan eitt um nóttina hafi þó kona hans vakið hann með þeim voveiflegu tíðindum að merki væri gefið um loftárásarhættu. Þjóðverjar voru að taka Noreg.
„Það var engum vafa undirorpið hvað var að gerast. Þjóðverjar höfðu hafið óvænta árás á alla hernaðarlega mikilvæga staði í Noregi án aðvörunar af nokkru tagi og án þess að setja neina úrslitakosti,“ skrifar Hambro í riti sínu, en það var hann sem hafði forgöngu um að þingmenn landsins, ríkisstjórnin og konungsfjölskylda voru flutt með hraði til Hamars í Heiðmörku, norður af Ósló, áður en þýski innrásarherinn réðst á Noreg af öllu afli.
Um svipað leyti og loftvarnaflautur gullu í Ósló seig þýska herskipið Blücher í dimmri þögn norður eftir Óslóarfirðinum í átt að borginni og var ætlað, auk annarra styrkja Þjóðverja, að tryggja yfirráð þýska hersins í höfuðborginni. Oskar Kummetz aðmírál og áhöfn hans var vel kunnugt um hið forna virki Oscarsborg í Drøbak-sundinu suður af Ósló, en óttuðust þó ekki eldfornar fallbyssur þess af 28 sentimetra hlaupvídd. Annað kom þó á daginn, eldur kviknaði um borð í Blücher í kjölfar tveggja fyrstu fallbyssuskotanna frá gömlu Oscarsborg. Auk þess miðuðu skyttur Blücher fallbyssum skipsins í fáti sínu allt of hátt miðað við fjarlægð Oscarsborg og hæfðu ekki virki andstæðingsins.
Þýsku áhöfninni var hins vegar ekki kunnugt um tundurskeytavirkið við Kaholmen, sem byggt var inn í fjall við fjörðinn árið 1901, búið þremur tvöföldum neðansjávartundurskeytahlaupum ætluðum óvæntum og óvelkomnum gestum. Skutu Norðmenn þaðan tveimur tundurskeytum á Blücher sem hæfðu aftara kjalrými og vélarrúm og unnu svo alvarlegt tjón á skrokki Blücher að þýska herskipið lagðist á hliðina og sökk. Af 1.038 manna áhöfn drukknuðu 830 manns þegar í stað í köldum sjó Drøbak-sundsins. Flak Blücher liggur á um 90 metra dýpi suðaustur af Askeholmene til minja um fyrsta ósigur þýska innrásarliðsins árið 1940.
Hambro heldur áfram í bók sinni: „Þegar til Hamars kom hafði enginn maður þar hugmynd um hvað gerst hafði. Útvarpsdagskráin hófst ekki fyrr en klukkan átta um morguninn og ég kærði mig ekki um að láta útvarpa nafni staðarins, sem stjórnin ætlaði til, af ótta við að Þjóðverjar gerðu árás á lestina. Ég gekk tafarlaust heim til lögreglustjórans, sem átti dálítið bágt með að skilja, að alvara væri á ferðum. „Þér hafið eflaust ruglast í dagsetningunni, herra forseti,“ sagði hann. „Það er ekki 1. apríl í dag heldur sá 9.“.“
Innrás Þjóðverja var þó ekkert aprílgabb. Þýskar hersveitir réðust á það sem nasistar töldu tryggja þeim helstu flutningsleiðir, svo sem járngrýtis frá Svíþjóð auk dýrmætra siglingaleiða við Noregsstrendur, þar á meðal Noregs megin borgirnar Narvik, Þrándheim, Björgvin, Kristiansand, Arendal að ógleymdri höfuðborginni Ósló.
Veturinn 1940 ríkti nánast kapphlaup milli Þjóðverja og bandamanna um Noreg. Öllu skipti að komast yfir útflutningsleiðir málmgrýtis frá Svíþjóð og siglingaleiðir Noregs auk þess sem Þjóðverjar litu á norsku firðina sem ákjósanlega felustaði fyrir stærstu orrustuskip sín, Bismarck og systurskipið Tirpitz, sem ætlað var meðal annars að ráðast á birgðaskipalestir á Atlantshafinu eins og berlega kom í ljós vorið 1941 í orrustunni við breska orrustuskipið Hood.
Þjóðverjar áttu sér bandamenn í Noregi, Vidkun Quisling og flokk hans, en máttu einnig búa sig undir óvænta andspyrnuhreyfingu sem reyndist þeim óþægur ljár í þúfu og átti, ásamt herjum bandamanna, ríkulegan þátt í því að þýskum hermönnum var að lokum stökkt á flótta frá Noregi. Norðmenn losnuðu endanlega undan veldi nasista í maí 1945. Carl Hambro á lokaorðin í þessari stuttaralegu upprifjun:
„Þegar hinn nýstofnaði bændaflokkur komst allt í einu til valda í maí 1931 og myndaði minnihlutastjórn, var bent á Kvisling sem álitlegan landvarnaráðherra í blaði því, er birt hafði greinar hans. Og foringi bændaflokksins, sem átti fullt í fangi með að skipa ráðherraembættin og þekkti hann alls ekki persónulega, gerði hann ráðherra í stjórn sinni. Það kom brátt í ljós, að hann var alveg óhæfur til að gegna ráðherraembætti. Hann var enginn mælskumaður, þóttafullur, en þó lingerður, óreyndur og með afbrigðum óskýr í hugsun; hann var því fullkomlega úrræðalaus í deilum um stjórnmál.“
Þýðingar í beinum tilvitnunum úr riti Carl J. Hambro eru Guðna Jónssonar, úr útgáfu Menningar- og fræðslusambands alþýðu, Reykjavík 1941