AGS: Versta kreppa frá kreppunni miklu

Kristalina Georgieva, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Kristalina Georgieva, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. AFP

Efnahagskreppan sem kórónuveirufaraldurinn hefur framkallað er sú versta frá Kreppunni miklu, sem skall á haustið 1929. Þetta segir Kristalina Gerogieva, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hún segir að faraldurinn hafi snúið öllum hagvísum á hvolf og á ekki von á að hagkerfið nái sér á strik nema að hluta til á næsta ári.

Ummæli Georgievu koma í aðdraganda vorfundar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, sem fram fer í næstu viku. „Fyrir aðeins þremur mánuðum gerðum við ráð fyrir að tekjur á mann ykjust í 160 aðildarríkjum okkar á árinu 2020,“ segir Georgieva. „Nú gerum við ráð fyrir að samdráttur verði í 170 ríkjum.“

Fyrr í vikunni var greint frá mati Sameinuðu þjóðanna um að 81% af starfandi fólki í heiminum ynni á vinnustöðum sem væru nú lokaðir að hluta eða í heild sinni vegna veirunnar. Þá hefur Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) birt spá sína um að 6,7% starfa á heimvísu muni hverfa nú á öðrum ársfjórðungi, en það hefur í för með sér að 195 milljónir manna missi vinnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert