Alls létust 799 manns í New York á síðasta sólarhring af völdum kórónuveirunnar. Þar með hafa yfir sjö þúsund látið lífið þar. Aldrei hafa fleiri látist í New York á einum degi en mesti fjöldinn hafði áður verið 779.
Þrátt fyrir þetta var Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, bjartsýnn og sagði að ekki hefðu færri verið lagðir inn á sjúkrahús síðan faraldurinn hófst.
Alls hafa 1.783 látist í Bandaríkjunum síðasta sólarhringinn, sem er 190 minna en daginn áður. Samtals hafa um 16.500 manns látist af völdum veirunnar í landinu, sem er það næstmesta í heiminum á eftir Ítalíu. Flest tilfelli kórónuveirunnar í heiminum hafa núna greinst í Bandaríkjunum, eða yfir 460 þúsund talsins.
Bandarísk yfirvöld eru sömuleiðis bjartsýnni en áður varðandi kórónuveirufaraldurinn í landinu þrátt fyrir að margir hafi látið lífið síðastliðinn sólarhring. Anthony Fauci, helsti ráðgjafi Bandaríkjaforseta vegna faraldursins sagði að ekki væri hægt að opna Bandaríkin aftur á einni nóttu af ótta við fleiri sýkingar en bætti við að landið gæti verið komið á gott ról í sumar. Til þess þyrftu Bandaríkjamenn að passa upp á halda réttri fjarlægð hver frá öðrum og halda sig heima við.
Í spjallþætti á CBS var hann spurður hvort Bandaríkjamenn gætu farið í sumarfrí, á hafnaboltaleiki, í brúðkaup og hitt aðra fjölskyldumeðlimi. „Það gæti gerst,“ sagði Fauci.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lagt mikla áherslu á að aflétta samkomubanni í landinu sem allra fyrst til að rétta við efnahaginn í landinu.