Segir að sonur hans þurfi á hvíld að halda

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er á batavegi.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er á batavegi. AFP

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er enn á spítala eftir að hafa verið fluttur af gjörgæsludeild í gær. Hann er engu að síður brattur, að sögn upplýsingafulltrúa í Downing-stræti.

Johnson hefur legið inni á St. Thomas-spítalanum í London með kórónuveiruna síðan á sunnudaginn en hann var fluttur á gjörgæslu daginn eftir.

Í gærkvöldi sagði talsmaður að hann hefði verið fluttur af gjörgæslu yfir á almenna deild og að þar myndi hann fá áframhaldandi meðhöndlun, að sögn BBC.

Stanley, faðir Johnsons, sagði fjölskylduna finna fyrir létti og hún væri þakklát heilbrigðisstarfsmönnum en forsætisráðherrann þyrfti núna að hvíla sig.

„Þetta hefur þjónað miklum tilgangi varðandi það að öll þjóðin hefur áttað sig á því að þetta er mjög alvarlegt,“ sagði Stanley í spjallþætti BBC Radio 4, um veikindi sonar síns og kórónuveiruna. 

„Hann er ekkert orðinn öruggur núna og hann verður að gefa sér tíma,“ sagði hann og bætti við að hann teldi að sonur sinn þyrfti einhvern aðlögunartíma áður en hann færi aftur til starfa í Downing-stræti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert