„Allir bara skíthræddir“

„Furðulegt um að litast í Chicago“ segir Khalid Shah Bukhari, …
„Furðulegt um að litast í Chicago“ segir Khalid Shah Bukhari, leigubílstjóri þar í borg, um mynd úr miðbæ borgar sem hýsir tæpar þrjár milljónir íbúa. Hann segir borgarbúa hreinlega skíthrædda, heilsan sé í fyrsta sæti, peningar komi og fari. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er svo undarlegt ástand hérna, allt er lokað og allir bara skíthræddir, enginn er á ferli. Fólk fær mat sendan heim, engir faðmast lengur eða takast í hendur.“ Þetta segir Khalid Shah Bukhari, leigubílstjóri á sextugsaldri í Chicago í Illinois í Bandaríkjunum, í samtali við mbl.is eftir að hafa sent vægast sagt sérstaka götumynd úr miðbæ borgar sem er heimili tæplega þriggja milljóna.

Bukhari er frá Pakistan og býr í borginni ásamt konu sinni og aldraðri móður, en þau hjónin eru barnlaus. Bukhari deilir þó íbúð með frænku sinni og manni hennar sem eiga fjögur börn og mega sáttir því þröngt sitja. Einnig á hann náskylda ættingja í Tennessee.

„Ég á bílinn minn sjálfur svo ég er engum háður en ég get ekki neitað því að þessir tímar eru erfiðir,“ segir Pakistaninn sem almennt kvartar ekki yfir verkefnaskorti. Hart er þó í ári um þessar mundir.

Þjappa sér saman án snertingar

„Ég fékk síðast túr á þriðjudaginn,“ segir Bukhari og hlær dátt þrátt fyrir allt og allt. „Við komumst af, eigum nógan mat heima og allir hjálpast bara að, þannig er það. Heilsan er í fyrsta sæti, að allir séu í lagi, peningar koma og fara, þú veist hvernig það er,“ segir hann glettinn.

Hvernig er andinn þá í Chicago nú um stundir?

„Fólk þjappar sér saman án þess að snertast,“ svarar Bukhari og skellihlær. „Þessu lýkur ekki hér í Bandaríkjunum á næstunni, ég hugsa að við séum bara að horfa á byrjun þessa faraldurs hér í landinu,“ segir leigubílstjórinn og gætir nú alvöru í rödd þessa annars hláturmilda manns.

Khalid Shah Bukhari segir undarlega stemmningu svífa yfir vötnum í …
Khalid Shah Bukhari segir undarlega stemmningu svífa yfir vötnum í Chicago í Illinois. Leigubílstjórinn frá Pakistan sleppir þó ekki tökum á húmornum, hann býr á fjölmennu heimili, vistir eru þar nægar og heilsan númer eitt. Ljósmynd/Aðsend

„Hér var faraldrinum tekið af fullmikilli léttúð í upphafi og stjórnvöld hafa nú fengið það rækilega í hausinn. En auðvitað reiknaði enginn með að þetta færi á þennan veg. Nú treystum við bara á guð og gæfuna og þetta fer eins og það fer,“ segir Khalid Shah Bukhari, leigubílstjóri í Chicago, að skilnaði og biður guð að blessa blaðamann, en Bukhari er strangtrúaður og biðst fyrir oft á dag. Enda getur heimsbyggðin nú kannski varla annað en beðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert