„Ég á þeim líf mitt að launa“

Boris Johnson ávarpaði fylgjendur sína á Twitter 3. apríl, Þremur …
Boris Johnson ávarpaði fylgjendur sína á Twitter 3. apríl, Þremur dögum seinna var hann lagður inn á spítala vegna kórónuveirunnar. Hann er nú laus af gjörgæslu og á batavegi. AFP

„Ég get ekki þakkað þeim nógsamlega. Ég á þeim líf mitt að launa,“ segir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sem stendur í þakkarskuld við starfsmenn breska heilbrigðiskerfisins. 

Johnson er enn á St Thomas'-spítalanum í Lundúnum en hann var útskrifaður af gjörgæslu á skírdag. Hann var greindur með kórónuveiruna 27. mars og var lagður inn á spítala síðasta sunnudag. Þetta verður því sjöunda nóttin hans á spítalanum. 

Í stuttri yfirlýsingu þakkar hann þeim sem hafa annast hann sem og fyrir allar kveðjurnar sem honum hafa borist.

Á sama tíma heldur kórónuveiran áfram að breiðast út í Bretlandi en alls létust 917 manns vegna Covid-19 á bresk­um sjúkra­hús­um síðasta sól­ar­hring­inn, þar á meðal 11 ára gamalt barn. Alls hafa tæp­lega tíu þúsund lát­ist í Bretlandi af völd­um Covid-19-sjúk­dóms­ins.

Staðfest smit í Bretlandi eru 78.991, að því er fram kem­ur í frétt AFP. Í gær lét­ust 980 manns á bresk­um sjúkra­hús­um og voru það flest dauðsföll af völd­um kór­ónu­veirunn­ar á ein­um sól­ar­hring þar í landi.

„Með því að vera í sundur tryggjum við öryggi annarra,“ segir Elísabet Englandsdrottning í páskadagsávarpi sínu sem birt var í kvöld. Þetta er líklega í fyrsta sinn sem páskaávarp þjóðhöfðingjans er tekið upp fyrirfram. „Við vitum að kórónuveiran mun ekki yfirbuga okkur,“ segir drottningin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert