Hvergi fleiri látið lífið en í Bandaríkjunum

Flaggað í hálfa stöng við Brooklyn-brúna í New York. Yfir …
Flaggað í hálfa stöng við Brooklyn-brúna í New York. Yfir 20.000 hafa látið lífið af völdum kórónuveirunnar í Bandaríkjunum, fleiri en í nokkru öðru ríki í heiminum. AFP

Dauðsföll af völdum COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur, eru orðin fleiri en 20.000 í Bandaríkjunum. Það merkir einnig að hvergi annars staðar í heiminum hafa fleiri látið lífið af völdum veirunnar. 19.468 dauðsföll hafa verið staðfest af yfirvöldum á Ítalíu.

Wyoming varð í dag síðast ríkjanna 50 til að lýsa yfir neyðarástandi vegna kórónuveirunnar. Öll ríkin eiga því rétt á fjármagni frá alríkinu til að takast á við faraldurinn. Samkvæmt CNN er þetta í fyrsta skipti í sögunni sem öll ríki Bandaríkjanna lýsa yfir neyðarástandi samtímis. 

Alls hafa 107.064 látið lífið í heiminum öllum af völdum veirunnar og eru staðfest tilfelli orðin 1.745.290 í 193 löndum. 344.600 manns hafa náð fullum bata. 

Flest eru dauðsföllin í Bandaríkjunum sem fyrr segir og í Evrópu eru þau flest á Ítalíu. Þar á eftir kemur Spánn með 16.353 staðfest dauðsföll og Frakkland með 13.832. 

Flest tilfellanna eru í Evrópu, eða rétt tæp 900 þúsund. Rúmlega 537 þúsund tilfelli hafa verið staðfest í Bandaríkjunum og Kanada. 134 þúsund tilfelli hafa greinst í Asíu og um 97 þúsund í Mið-Austurlöndum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert