Núverandi stefna stjórnvalda mun drepa hagkerfið

Verðbréfamarkaðir í Bandaríkjunum hafa verið í frjálsu falli síðan kórónuveiran …
Verðbréfamarkaðir í Bandaríkjunum hafa verið í frjálsu falli síðan kórónuveiran byrjaði að dreifa sér um heim allan. AFP

Kórónuveiran sem veldur sjúkdómnum COVID-19 er hættulegasti heimsfaraldur í heila öld og hefur valdið bæði efnahags- og heilsufarskrísu. En haldi bandarísk stjórnvöld áfram að fylgja núverandi stefnu sem byggist á því að bæla faraldurinn niður mun hagkerfi landsins deyja.

Þetta segja þeir Paul Romer, nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, og Alan Garber, læknir og hagfræðingur, í grein sinni Mun hagkerfi okkar deyja úr kórónuveirunni? sem birtist í New York Times. Þar segja þeir að ósamræmi ríki í aðgerðum mismunandi ríkja Bandaríkjanna og að þær geti valdið hræðilegum afleiðingum til lengri tíma litið.

Reglur um samskiptafjarlægð (e. Social distancing) séu neyðaraðgerðir og til þess fallnar að bjarga lífi fólks en stöðvi hagkerfið um leið. Afleiðingarnar séu þegar farnar að koma í ljós með vaxandi atvinnuleysi. Ríkisábyrgðir á lánum og styrkir til fyrirtækja muni að einhverju leyti afstýra gjaldþrotum en þær aðgerðir muni ekki vega nægilega upp á móti því sem tapast þegar reglur um samskiptafjarlægð komi í veg fyrir að fólk framleiði vörur og veiti þjónustu.

Þarf breytta og markvissari nálgun

Til að vernda efnahaginn og lífshætti Bandaríkjamanna þurfi breytta og markvissa nálgun innan nokkurra vikna sem miðar að því að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar en veiti á sama tíma frelsi til að fólk geti mætt aftur í vinnu og tekið upp lifnaðarhætti eins og þeir voru fyrir faraldurinn.

Sú nálgun myndi byggjast á tveimur aðferðum: Í fyrsta lagi að beita reglum um samskiptafjarlægð með markvissari hætti þannig að þær taki mið af mismunandi aðstæðum fólks og í öðru lagi að taka upp víðtækari notkun á hlífðarfatnaði og búnaði til að koma í veg fyrir smit. Í viðtali við Spiegel sem birtist í dag útskýrir Paul Romer betur hvernig hægt væri að beita þessari aðferðafræði.

Romer og Garber gera þann fyrirvara að til að taka þessa aðferðafræði upp myndi þurfa að auka framleiðslu hlífðarbúnaðar og veiruprófa gríðarlega. Þeir taka þó fram að nýlega hafi bandaríska lyfjaeftirlitið veitt fyrirtækinu Cepheid leyfi til þess að selja veirupróf sem á að skila niðurstöðu á 45 mínútum og að víða sé verið að þróa önnur próf.

Paul Romer er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði.
Paul Romer er nóbelsverðlaunahafi í hagfræði. AFP

Væri hægt að hefja reglubundnar skimanir

En með nýjum prófum sem væru bæði hagkvæmari og auðveldari í notkun en prófin sem notuð eru í dag væri hægt að taka sýni úr öllum, aftur og aftur, en ekki bara þeim sem sýna einkenni eða hafa verið útsettir fyrir smiti. Þannig væri hægt að greina ný smit og einangra viðkomandi áður en einkenni kæmu upp.

Hægt væri að hefja skimanir á almenningi vikulega og á heilbrigðisstarfsfólki og viðbragðsaðilum jafnvel daglega. Það væri ekki hægt eins og staðan er í dag en það væri hægt ef alríkisstjórn Bandaríkjanna myndi setja sér það markmið og setja nægilegt fjármagn í þróun slíkra prófa.

Samhliða þessu væri hægt að byrja að prófa almenning og leita eftir þeim sem hafa myndað mótefni fyrir veirunni. Í framhaldinu væri hægt að leyfa þeim sem hafa myndað mótefni og þeim sem ekki eru sýktir að snúa aftur til sinna starfa enda væri búið að lágmarka hættuna á að þeir hópar dreifi smituðu.

Að sama skapi þyrfti að stórauka framleiðslu á hlífðarbúnaði þar sem skortur er á slíkum búnaði eins og er. Sá búnaður sem til er sé þó erfiður í notkun og ríkisstjórn Bandaríkjanna þyrfti að fjármagna þróun og framleiðslu á nýjum búnaði sem er auðveldari í notkun og gæti nýst öllum almenningi.

Óbreytt stefna mun gera út um hagkerfið

Kostnaðurinn við þetta allt saman myndi hlaupa á trilljónum bandaríkjadala en yrði engu að síður minni en kostnaðurinn við að halda áfram núverandi stefnu stjórnvalda með tilheyrandi björgunaraðgerðum fyrir fyrirtæki. Eftir því sem tíminn líður muni síðan vera hægt að reiða sig á bóluefni og hjarðónæmi þjóðarinnar.

„Við höfum ekki efni á því að bíða og vona. John Maynard Keynes sagði eins og frægt er orðið að til lengri tíma litið munum við öll deyja. Ef við höldum áfram að fylgja núverandi stefnu sem byggist á bælingu faraldursins með almennum og ómarkvissum reglum um samskiptafjarlægð næstu 12 til 18 mánuði verðum við þó flest lifandi. Það er hagkerfi okkar sem verður dautt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert